Flug­fé­lögin Ea­syJet og Ry­anair hafa hvatt fyrr­verandi starfs­fólk Flybe til að sækja um vinnu hjá sér eftir að síðast­talda fé­lagið varð gjald­þrota síðast­liðinn laugar­dag. Flybe er nú farið á hausinn í annað skiptið og misstu rúm­lega 280 manns vinnuna.

Ry­anair aug­lýsti á vef­síðu sinni að lausar stöður væru í boði fyrir flug­menn, flug­virkja og flug­vallar­starfs­fólk. Að sama skapi hefur Ea­syJet sagt að 250 laus störf séu í boði í flug­á­höfnum.

Margir fyrr­verandi starfs­menn Flybe fóru í gegnum svipaða reynslu þegar fé­lagið varð fyrst gjald­þrota í mars 2020, þegar kóróna­veirufar­aldurinn varð Flybe að falli. Fyrir­tæki í eigu banda­rísks fjár­festingar­sjóðs kom svo Flybe til bjargar og tóku flug­vélar fé­lagsins aftur á loft í apríl 2022.

Martin Chalk, for­maður Sam­taka breskra at­vinnu­flug­manna, segir skiljan­legt að fólk sé reitt og á­hyggju­fullt en bætir við að störf séu í boði og að að­stæðurnar hafi breyst mikið. „Kosturinn nú er sá að markaðurinn er mun líf­legri en hann var, fyrst kóróna­veirufar­aldurinn er meira og minna í bak­sýnis­speglinum,“ segir Martin.

John Strick­land og fleiri flug­mála­sér­fræðingar hafa bent á að þrátt fyrir mikla eftir­spurn eftir flug­ferðum hafi Flybe ein­fald­lega ekki náð að halda sér á floti. Hörð sam­keppni og hækkandi elds­neytis­verð hafi verið stór vegar­tálmi fyrir flug­fé­lagið sem skort hafi á sama tíma skýra og for­svaran­lega við­skipta­stefnu.