Starfsfólk Eimskips sem vinnur á skrifstofu býðst að vinna hluta af vinnuvikunni í fjarvinnu. Þetta kemur fram í nýmótaðri stefnu um fjarvinnu starfsmanna sem er hluti af sveigjanlegu og verkefnamiðuðu vinnuumhverfi.

Í rúmt ár hefur starfsfólki í höfuðstöðvum fyrirtækisins verið boðið upp á verkefnamiðað vinnuumhverfi þar sem starfsfólk getur valið sér vinnuaðstöðu sem hæfir verkefnum hverju sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Markmið með stefnunni er meðal annars að auka starfsánægju, stuðla að auknum sveigjanleika í starfi og laða að að hæfileikaríkt fólk til vinnu.

„Við hjá Eimskip höfum sett okkur markmið um að skapa eftirsóknarverðan vinnustað sem laðar að sér hæft starfsfólk sem vex og dafnar í starfi,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasvið.

„Við stigum stórt skref í fyrra þegar við tókum upp verkefnamiðað vinnuumhverfi þar sem starfsfólk á skrifstofu getur valið sér starfsstöð eftir eðli verkefna hverju sinni. Nú útvíkkum við það og bjóðum uppá enn fjölbreyttara og nútímalegra vinnuumhverfi þar sem fjarvinna verður ein af fjölmörgum starfstöðum. Þannig stuðlum við að aukinni starfsánægju og almennri vellíðan, aukum sveigjanleika í starfi og styðjum við betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Um leið náum við að draga úr kolefnisspori vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu og minnka ferðatíma sem er okkur mikilvægt,“ segir hún,