Sætanýtingin í millilandaflugvélum Icelandair hefur verið góð miðað við aðstæður það sem af er sumri, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra félagsins.

„Sérstaklega í ljósi þess að við höfum verið að hefja flug á ný til fjölmargra áfangastaða,“ bendir hann á og bætir við: „Fyrir utan að við höfum mikið til verið að nota stóru 767-vélarnar okkar vegna mikillar spurnar eftir fraktflutningum sem á móti hefur neikvæð áhrif á sætanýtingu.“

Hann segir sætanýtinguna hafa verið í kringum 70 prósent í júlí og kveðst bjartsýnn á að hún eigi eftir að batna enn frekar í ágústmánuði.

„Það er mikill ferðavilji til staðar meðal landsmanna og þjóðirnar í kringum okkur farnar að leggja meiri áherslu á bólusetningarhlutföll frekar en fjölda smita.“

Í júlí flaug Icelandair til 29 áfangastaða, 19 í Evrópu og 10 í Bandaríkjunum, en Bogi telur að fleiri áfangastaðir bætist við á næstu vikum og mánuðum. „Við byrjuðum að fljúga til Toronto í Kanada í þessari viku og svo má búast við því að við bætum fleiri borgum við á Bretlandseyjum áður en langt um líður.“

25 vélar eru nú í notkun hjá flugfélaginu, en þær voru flestar 36 áður en farsóttin skall á fyrir hálfu öðru ári. „Það verður brekka áfram en til lengri tíma litið erum við bjartsýn,“ segir Bogi Nils.