Ekki stendur til að bjóða upp á stakan fréttatíma hjá Stöð 2. Sjónvarpsáhorfendur hafa geta keypt staka viðburði, eins og tónleika eða íþróttakappleiki en Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2, segir að það sé ekki á stefnuskránni hvað sem síðar verður.
Líkt og fram hefur komið tilkynntu forsvarsmenn Sýnar fyrr í mánuðinum að kvöldfréttunum verði læst, í fyrsta skiptið síðan þær hófu göngu sína árið 1986. Sú læsing tók gildi í gær og því einungis áskrifendur sem gátu horft á fréttatímann.
Þórhallur segir að það hafi ekki komið sér á óvart að fólk sem séu ekki eru áskrifendur hafi upplifað þessa breytingu sem neikvæða. „Þeim finnst eðlilega vont að missa af kvöldfréttum Stöðvar 2 sem við höfum haft í opinni dagskrá í áratugi,“ segir Þórhallur.
Stjórn Blaðamannafélags Íslands gaf í kjölfarið út tilkynningu þar sem félagið sagði ákvörðunina „lægsta punkt í samtímasögu íslenskra fjölmiðlunar.“
Þórhallur segir að fréttastofan muni halda áfram að sinna hlutverki sínu. „Fréttastofa okkar sem hefur sinnt frábærri fréttaþjónustu á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni og mun halda því áfram,“ segir hann.
„Ég er sannfærður um að flestir landsmenn geri sér grein fyrir mikilvægi fréttastofunnar og trúi því að sem flestir hafi skilning á þessum aðgerðum sem er ætlað að styrkja fréttaþjónustu okkar.“