Eigendur Síldarvinnslunnar hyggjast selja 26,33 til 29,33 prósenta hlut í komandi hlutafjárútboði útgerðarfélagsins, að því er fram kemur í nýbirtri í útboðslýsingu. Samherji mun selja að lágmarki 12 prósent, Kjálkanes 12 prósent, Eignarhaldsfélagið Snæfugl 1 prósent, Hraunlón ehf 1 prósent og Síldarvinnslan selur eigin bréf sem samsvara 0,73 prósent af heildarhlutafé.

Í útboðslýsingunni kemur einnig fram að árið 2021 sé talið munu verða það besta í rekstri Síldarvinnslunnar í mörg ár, en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) er áætlaður 72 til 77 milljónir Bandaríkjadala. Á árunum 2015 til 2020 var lá sama tala á bilinu 44 til 63 milljónir, þó hafa beri í huga að Síldarvinnslan hefur stækkað reksturinn nokkuð með yfirtöku á fyrirtækjum á síðastliðnum árum.

Miðað við útboðsgengið, eins og áður hefur komið fram í umfjöllun Markaðarins, er verðmæti alls hlutafjár Síldarvinnslunnar talið vera á bilinu um 93,5 til 99 milljarðar króna.

Nettó vaxtaberandi skuldir fyrirtækisins eru ætlaðar örlítið hærri en áætlaður EBITDA-rekstrarhagnaður ársins 2021 sem sagt er skapa góðar forsendur til arðgreiðslna. Í kynningunni segir að arðgreiðslustefnan verði sú að 30 prósent hagnaðar hið minnsta verði greitt út sem arður á hverju ári, en á sama tíma verði þess gætt að eiginfjárhlutfall fari ekki undir 50 prósent í kjölfar arðgreiðslu.

Sjávarútvegsrisinn Samherji er í dag stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með tæplega 45 prósenta hlut en eignarhaldsfélagið Kjálkanes, sem er einnig meðal annars eigandi útgerðarfélagsins Gjögurs á Grenivík, er næst stærsti hluthafinn með 34, prósenta hlut.

Hlutafjárútboðið mun fara fram dagana 10. til 12. maí en áætlað er að fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf Síldarvinnslunnar í Kauphöllinni verði 27. maí næstkomandi.