Lífeyrissjóði verzlunarmanna, stærsta einstaka hluthafa N1, var ekki kunnugt um ákvörðun fyrirtækisins að hækka laun forstjóra á síðasta ári. Segir í tilkynningu frá sjóðnum að forsvarsmönnum hafi ekki orðið ljóst um að laun Eggerts Þórs Kristóferssonar hefðu hækkað um 20,7 prósent á milli ára fyrr en ársreikningur félagsins var birtur og eftir umfjöllun Fréttablaðsins.

Lýsa forsvarsmenn yfir undrun sinni á ákvörðun stjórnar N1.

 „Lífeyrissjóðurinn telur það orka tvímælis hvort fjárhæð launa forstjóra og hækkun þeirra samræmist þessum viðmiðum og þeim sjónarmiðum sem hluthafastefna sjóðsins byggir á,“ segir í tilkynningu sjóðsins, sem á 13,3 prósent hlutafjár í N1.

Sjá einnig: Leggja til að starfs­menn fái sömu hækkun og for­stjórinn

Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að Árna Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gildi lífeyrissjóðs, sem á 9,2 prósent hlut í N1, hafi ekki verið kunnugt um kjarahækkunina.

Lífeyrissjóðir hér á landi eiga í kringum 50 prósent hlut í N1.