Stærsti hluthafi Alvogen, alþjóðlega fjárfestingarfélagið CVC Capital Partners, vinnur nú að sölu á öllum hlut sínum í lyfjafyrirtækinu. Samkvæmt heimildum Markaðarins eru viðræður um sölu langt komnar en CVC kom fyrst inn í hluthafahóp Alvogen árið 2015, þegar sjóðurinn, ásamt Temasek, leiddi hóp fjárfesta sem keypti samanlagt um 69 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Ekki fást staðfestar upplýsingar um væntanlegan kaupanda að hlut CVC, sem á liðlega helming í Alvogen, en að sögn þeirra sem þekkja vel til standa yfir viðræður við alþjóðlegan fjárfestingasjóð. Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvogen, er á meðal stærstu hluthafa lyfjafyrirtækisins í gegnum fjárfestingarfélagið Aztiq Pharma sem á um 30 prósenta hlut. Samtals starfa um 2.800 manns hjá Alvogen á heimsvísu en þar af eru um 200 á Íslandi.

Ólíklegt þykir að CVC muni takast að selja hlut sinn á hærra verði en þegar sjóðurinn fjárfesti í félaginu fyrir hartnær sex árum en í þeim viðskiptum var heildarvirði Alvogen metið á um tvo milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 250 milljarða króna á núverandi gengi, og hlutaféð á 1,1 milljarð dala.

Hreinar skuldir Alvogen nema í dag um 1,2 milljörðum dala – skuldsetningarhlutfallið er tæplega sex sinnum EBITDA-hagnaður félagsins – og hafa þær nærri tvöfaldast frá því að CVC kom fyrst inn í hluthafahópinn. Talsverðir erfiðleikar hafa einkennt reksturinn í Bandaríkjunum að undanförnu, sem stendur undir miklum meirihluta tekna Alvogen, en það stafar meðal annars af því að lengri tíma hefur tekið að fá samþykki fyrir helstu lyf, einkum Revlimid, sem félagið áformar að setja á markað vestanhafs.

Í síðustu viku breytti lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s horfum Alvogen í Bandaríkjunum úr stöðugum í neikvæðar og vísaði til þess að endurfjármögnunaráhætta félagsins hefði aukist og því væri ólíklegt að markmið þess um að ná skuldum undir fimmfaldri EBITDA á þessu ári muni nást. Árlegar afborganir og vaxtagreiðslur af lánum eru sagðar nema yfir 150 milljónum dala en félagið átti um 113 milljónir dala í reiðufé á síðasta fjárhagstímabili sem lauk í september. Tekjur Alvogen námu þá 484 milljónum dala.

Í ársbyrjun 2020 var gengið frá sölu á starfsemi Alvogen í Mið- og Austur-Evrópu til Zentiva Group fyrir um 750 milljónir dala.

Á undanförnum misserum og árum hafa Alvogen og hluthafar þess verið mikilvægir bakhjarlar við fjármögnun á miklum vexti systurfélagsins Alvotech. Líftæknifyrirtækið, sem réðst nýlega í stækkun á hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni þar sem starfa um 500 manns, kláraði 65 milljóna dala hlutafjáraukningu síðastliðið haust en auk Alvogen – sem lagði til stóran hluta fjármagnsins – komu að henni fjárfestar úr lyfjageiranum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Alvotech vinnur nú að því að ljúka frekari hlutafjárfjármögnun, upp á liðlega 30 milljónir dala, til að styðja við reksturinn fram að hlutafjárútboði og skráningu á markað í Hong Kong síðar á árinu. Markaðsvirði Alvotech er í dag talið vera um 1,5 milljarðar dala. Í ágúst í fyrra var tilkynnt um að Alvotech og alþjóðlegi lyfjarisinn Teva Pharmaceuticals hefðu gert með sér samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu fimm líftæknilyfja í Bandaríkjunum. Mun samningurinn tryggja Alvotech tekjur upp á hundruð milljarða á næstu árum.

Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Fund, undir forystu Róberts, og þá er Alvogen, systurfélag Alvotech, stór hluthafi en aðrir eigendur eru meðal annars fjárfestingasjóðurinn Yas Holding og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma.