Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, langsamlega stærsti hluthafi Arion banka með um 23,2 prósenta eignarhlut, freistar þess nú að losa um tæplega helming allra bréfa sinn í bankanum á næstu dögum.

Samkvæmt heimildum Markaðarins stefnir Taconic að því að selja allt að tíu prósenta hlut með tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild offering), samanlagt um 170 milljónir hluta að nafnverði, en miðað við hlutabréfverð bankans um þessar mundir – það stóð í 99,2 krónum við lokun markaða í gær – er markaðsvirði þess hlutar um 17 milljarðar króna. Ljóst er hins vegar að svo stór hlutur, sem umsvifamesti eigandi bankans hefur áhuga á að losa um, verður seldur á nokkrum afslætti miðað við núverandi gengi bréfa Arion ef af viðskiptunum verður.

Söluferlið á bréfum Taconic hófst í gær þegar haft var samband við meðal annars ýmsa lífeyrissjóði og verðbréfasjóði, sem eru í hópi stærstu hluthafa Arion banka, og þeim boðið að fá frekari upplýsingar í tengslum við áformaða sölu og þá um leið gerast tímabundnir innherjar fram á miðvikudag, samkvæmt heimildum Markaðarins. Það eru Fossar markaðir sem eru ráðgjafar Taconic við söluna.

Fjárfestar hafa frest til klukkan sex næstkomandi þriðjudag til að skila inn tilboðum í hlut Taconic Capital í Arion banka. Hlutabréfaverð bankans lækkaði um tæplega 1,8 prósenta í samtals um 830 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í gær.

Fyrir hefur annar bandarískur vogunarsjóður, Sculptor Capital Management, selt í Arion fyrir samanlagt meira en 11 milljarða króna frá því í byrjun desember á síðasta ári – minnkað þannig hlut sinn úr 9,9 prósent í 2,94 prósent á aðeins um sjö vikum – en sjóðurinn, sem áður hét Och-Ziff Capital, var fyrir þá sölu annar stærsti hluthafi bankans.

Sá sem stýrir félaginu sem heldur utan um hlut Taconic Capital í Arion banka er Frank Brosens, stofnandi og eigandi bandaríska vogunarsjóðsins.

Ákvörðun Taconic um að hefja söluferli á stórum hluta bréfa sinna kemur á sama tíma og gengi bréfa Arion banka hefur hækkað verulega á undanförnum vikum á mánuðum. Hlutabréfaverð bankans, sem fór lægst í 51 krónu á hlut þann 24. mars síðastliðinn, stóð í 99,2 krónum á hlut við lokun markaða í gær og hefur því hækkað um liðlega 95 prósent á síðustu tíu mánuðum.

Bankinn sendi frá jákvæða afkomuviðvörun síðastliðinn mánudag en hagnaður hans á síðasta ársfjórðungi verður umtalsvert betri en spár greinenda gerðu ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að hagnaðurinn verði um 6 milljarðar króna og reiknuð arðsemi á ársgrundvelli ríflega 12 prósent.

Taconic Capital kom fyrst inn í hluthafahóp Arion banka vorið 2017 þegar sjóðurinn, ásamt tveimur öðrum erlendum vogunarsjóðum og fjárfestingabankanum Goldman Sachs, keypti samtals nærri 30 prósenta hlut í bankanum af eignarhaldsfélaginu Kaupþingi fyrir um 49 milljarða króna.

Sjóðurinn bætti verulega við eignarhlut sinn í Arion banka árið 2019 þegar hann keypti samanlagt um þrettán prósenta eignarhlut í tveimur viðskiptum í apríl og júlí það ár. Seljandi bréfanna var eignarhaldsfélagið Kaupþing en gengið í þeim viðskiptum var annars vegar 72 krónur á hlut og hins vegar 75,5 krónur á hlut. Í júlí í fyrra minnkaði Taconic hlut sinn í bankanum þegar hann seldi - í fyrsta sinn frá því hann kom í hluthafahópinn - um 1,45 prósenta hlut fyrir 1.600 milljónir.

Fyrir utan Taconic Capital eru stærstu hluthafar Arion banka Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og fjárfestingafélagið Stoðir. Samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóðanna í bankanum, sem hafa aukið mjög við hlut sinn í bankanum á undanförnum misserum samhliða því að erlendir fjárfestar hafa verið selja, er liðlega 40 prósent.