Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, langsamlega stærsti hluthafi Arion banka, hefur minnkað við hlut sinn í bankanum um 1,45 prósentur. Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðurinn selur í Arion frá því að hann kom inn í hluthafahópinn vorið 2017 en hann er eftir sem áður stærsti hluthafi bankans með 23,22 prósenta eignarhlut.

Taconic Capital seldi þannig rúmlega 25 milljónir hluta að nafnverði í bankanum á genginu 64 krónur á hlut, fyrir samtals um 1.600 milljónir króna, en viðskiptin fóru fram síðastliðinn mánudag.

Á meðal helstu kaupenda að bréfunum voru lífeyrissjóðirnir Birta og Stapi.

Auk Taconic Capital hafa aðrir helstu erlendu fjárfestarnir í hlutahafahópi Arion banka – Goldman Sachs, Lansdowne Partners og Eaton Vance – einnig verið að minnka stöðugt við hlut sinn í bankanum á undanförnum mánuðum og misserum. Á sama tíma hafa íslenskir lífeyrissjóðir verið að auka umtalsvert við eignarhlut sinn í Arion banka en samanlagður eignarhlutur þeirra nemur nú um 30 prósentum.

Hlutabréfaverð Arion banka, sem fór lægst í 51 krónu á hlut þann 24. mars síðastliðinn, stendur nú í 64,9 krónum en það hefur lækkað um liðlega 25 prósent frá áramótum. Markaðsvirði bankans er um 112 milljarðar króna.

Á aðalfundi Arion um miðjan mars samþykktu hluthaf­ar bankans að fresta boðaðri arð­greiðslu upp á tíu milljarða króna og þá hefur bankinn sagst ekki ætla að fara í frekari kaup á eigin bréfum fyrr en óvissa vegna kórónaveirufaraldursins hefur minnkað.

Í viðtali við Fréttablaðið í apríl sagði Ás­geir Jónsson seðlabankastjóri að hann teldi það „algjörlega ótækt“ af bankanum að skoða að fara fram með upphafleg arðgreiðsluáform sín síðar á árinu og hið sama gilti um kaup á eigin bréfum.