Seðlabanki Íslands hefur selt erlendan gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði fyrir að minnsta kosti 9,2 milljarða króna frá því að bankinn tilkynnti um regluleg inngrip. Stór sala í síðustu viku var stærsta sala bankans á einum degi frá árinu 2008.

Seðlabankinn upplýsti eftir lokun markaða miðvikudaginn 9. september, að hann væri reiðubúinn til að selja allt að 240 milljónir evra, jafnvirði 40 milljarða króna, í reglulegum viðskiptum við viðskiptavaka stóru bankanna á gjaldeyrismarkaði, til ársloka 2020. Mun Seðlabankinn selja þeim þrjár milljónir evra hvern viðskiptadag. Reglubundin gjaldeyrissala Seðlabankans mun þó ekki hafa áhrif á yfirlýsta gjaldeyrisinngripastefnu hans, sem snýst um að draga úr óhóflegum skammtímasveiflum.

Nýjustu tölur um gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans, sem ná til föstudagsins 18. september, sýna að bankinn hefur selt gjaldeyri fyrir minnst 9,2 milljarða króna frá tilkynningunni. Hann seldi fyrir 2,9 milljarða króna föstudaginn 11. september og tæplega 4,4 milljarða síðasta föstudag. Það er mesta gjaldeyrissala Seðlabankans á markaði á einum degi frá árinu 2008. Aðra daga hefur bankinn selt fyrir um 480 milljónir króna.

Gjaldeyrismiðlun Landsbankans sendi tölvupóst á valda viðskiptavini eftir inngripin síðasta föstudag. Bent var á að „veikingarkippur“ hefði komið í krónuna og að skýr merki hefðu verið um skrúfumyndun á markaðinum. Spurningar hefðu vaknað um hvort Seðlabankinn ætlaði að stíga inn í.

„Þeirri spurningu var svarað með látum og í lok dagsins þurfti enginn að efast um að SÍ gerir það sem þarf. Jafnvel hægt að vera hissa hvað hann gerði mikið,“ segir í tölvupóstinum. Þá segist gjaldeyrismiðlun bankans ekki vera bjartsýn á styrkingu krónunnar.

„Undirliggjandi flæði er neikvætt fyrir [krónuna] þannig að við erum ekkert bjartsýnir á styrkingu. En á hinn bóginn er enginn til í slag við einhvern sem á [sex milljarða evra] og líklega 1-2 [milljarða] til að „leika sér með“ á markaði,“ segir í tölvupósti sem var sendur til viðskiptavina í byrjun þessarar viku.

Gengi krónunnar gagnvart evru stendur nær óhaggað frá því að Seðlabankinn tilkynnti um regluleg inngrip. Það stendur í 162 krónum.