Dóttur­fé­lag Al­vogen, Lotus Pharmaceuti­cal Co., Ltd, í Taí­van, hefur til­kynnt um út­gáfu nýrra hluta­bréfa í lokuðu út­boði sem seld verða til In­nobic (Asía), dóttur­fé­lags PTT Public Company Limited, stærstu fyrir­tækja­sam­stæðu sem skráð er í Taí­landi. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Al­vogen.

Þar kemur fram að við­skiptin miði að því að efla að­gang fyrir­tækisins að mörkuðum í Suð­austur-Asíu enn frekar. PTT, sem er í meiri­hluta eigu taí­lenska fjár­mála­ráðu­neytisins, er eina fyrir­tæki þjóðarinnar sem skráð er á lista Fortu­ne Global 500.

Sam­kvæmt samningnum skuld­bindur In­nobic (Asía), sem er lyfja- og líf­tækniarmur PTT, sig til að fjár­festa í fyrir­tækinu fyrir um það bil 50 milljónir Banda­ríkja­dala. Með þessu munu fyrir­tækin í sam­einingu nýta tæki­færi til vaxtar á mörkuðum í Suð­austur-Asíu, meðal annars í Taí­landi, Víet­nam, Filipps­eyjum og Malasíu.

„Þetta sam­starf er mikil­vægur á­fangi í að ná fram fram­tíðar­sýn okkar um að gera Lotus leiðandi á heims­vísu í fram­leiðslu og sölu krabba­meins­lyfja til inn­töku,“ er haft eftir Róberti Wess­mann, stjórnar­for­manni Lotus Pharmaceuti­cal í til­kynningunni.

„Lotus hefur tryggt sér sam­starf við mörg leiðandi lyfja­fyrir­tæki um allan heim til að markaðs­setja og selja vörur okkar. Við­bót In­nobic (Asía) sem hlut­hafa mun styðja enn frekar við vöxt Lotus í Asíu og mark­mið fyrir­tækisins að vera leiðandi á heims­vísu í þessum lyfjum.“