Úkraínski flugframleiðandinn Antonov hefur staðfest að stærsta þota heims, Antonov AN-255, sem eyðilagðist í árás Rússa á flugvelli skammt frá Kænugarði, verði endursmíðuð. Talsmenn Antonov tilkynntu síðastliðinn mánudag að verkefnið og hönnunarferlið væri nú þegar hafið.

Fyrirtækið áætlar að viðgerðarkostnaðurinn verði í kringum 500 milljónir evra og lofar að veita frekari upplýsingar um framtíð vélarinnar „eftir sigurinn“.

Antonov-þotan var eyðilögð í árás Rússa þann 27. febrúar síðastliðinn þar sem hún sat á heimaflugvelli sínum í Hostomel í um 25 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Kænugarði. Á þeim tíma voru yfirvöld fljót að lýsa því yfir að þau ætluðu sér að endursmíða flugvélina og að draumurinn myndi aldrei deyja.

Fyrirtækið hefur ekki staðfest núverandi ástand vélarinnar en segir að það sé með 30 prósent af þeim varahlutum, sem þarf til að smíða nýja þotu, í höndunum. Antonov stendur ekki eitt á bak við verkefnið en úkraínska frumkvöðlafyrirtækið Metal Time selur nú flugvélarlíkön af AN-255 vélinni á heimasíðu sinni til að safna peningum fyrir smíðinni, þjálfun flugmanna og húsnæði fyrir starfsmenn fyrirtækisins sem misstu heimili sín í innrásinni.

Flugvélin var kölluð Mriya, eða Draumurinn, og upphaflega smíðuð á níunda áratugnum til að bera geimskutlur Sovétríkjanna á bakinu. Ekkert varð úr þeim áformum. Þess í stað var ákveðið að nýta vélina frekar í fraktflutninga en vélin gat borið tvöfalt stærri og þyngri farma en flugvél af gerðinni Boeing 747.