Komið hefur í ljós að staða tveggja fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA Capital Management er umtalsvert verri en gert var ráð fyrir við kaup Kviku banka á sjóðastýringarfyrirtækinu. Hefur skráð gengi þeirra verið lækkað sem því nemur. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Um er að ræða sjóðinn Novus sem fjárfesti í nýbyggingum hérlendis og Anglia sem er fimm milljarða fasteignasjóður sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði í London, að því er hefur áður komið fram í fréttum.

Lækkun á gengi sjóðanna hefur ekki áhrif á áætlaða afkomu Kviku á árinu 2019. Afkomuspá Kviku var hækkuð í annað sinn á árinu samhliða birtingu hálfsársuppgjörs og er áætlað að afkoma á árinu 2019 verði 2.900 milljónir króna fyrir skatta.

Kvika banki eignaðist GAMMA í mars á þessu ári og hefur félagið verið dótturfélag bankans síðan þá. Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að endurskipulagningu á eignastýringarstarfsemi Kviku og bankinn tilkynnti þann 2. september sl. að sameina ætti eigna- og sjóðastýringastarfsemi samstæðunnar í einu dótturfélagi.

Næstu skref við endurskipulagningu eignastýringarstarfsemi samstæðunnar verða að færa starfsemi eignastýringar Kviku inn í Júpíter rekstrarfélag, dótturfélag bankans. Í kjölfarið er stefnt að því að sameina starfsemi GAMMA og Júpíters.