Góður gangur var í nýjum útlánum Lykils á þessu ári, einkum yfir sumarmánuðina, segir Ólöf Jónsdóttir framkvæmdastjóri Lykils. Hún telur að samruni Tryggingamiðstöðvarinnar og Kviku banka sem nú bíður samþykkis hluthafa muni styrkja rekstur Lykils.

Hvað gekk vel á árinu 2020?

Árið 2020 var ár mikilla breytinga. Ég flutti mig frá Kviku banka og tók við stjórnartaumunum í Lykli fjármögnun í mars, en félagið hafði þá nýlega skipt um eignarhald og flutt starfsemi sína úr Ármúla yfir í höfuðstöðvar TM í Síðumúla.

Nýtt eignarhald og flutningar félagsins voru að ýmsu leyti krefjandi og að mörgu að hyggja þegar tvö félög koma saman með þessum hætti, hvort heldur er varðar strategíu, kerfismál eða starfsfólk. Heilt yfir vil ég meina að þetta hafi gengið vel og eftir því sem leið á árið náðist æ betri taktur í starfseminni.

Við vorum auðvitað ekki, frekar en önnur fyrirtæki, undanskilin þeim áhrifum sem COVID-19 hefur haft á samfélagið og atvinnulífið og drjúgur hluti okkar starfsfólks hefur unnið meira og minna heiman frá sér stóran hluta ársins. Því fylgja talsverðar áskoranir fyrir stjórnendur og starfsfólk en þeim áskorunum hefur verið mætt með glæsibrag að mínu mati og starfsemin þrátt fyrir allt gengið vel.

Starfsemi Lykils fjármögnunar gekk ágætlega á árinu. Góður gangur var í nýjum útlánum, ekki síst yfir sumarmánuðina þegar talsverður kippur kom í bílasölu, og markmið ársins í nýjum útlánum náðust snemma í haust, sem var mjög ánægjulegt.

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

Afkoma félagsins á árinu er nokkuð lituð af einskiptiskostnaði sem óhjákvæmilega fellur til við breytingar á eignarhaldi, vaxtalækkunum, hagræðingaraðgerðum og síðast en ekki síst heimsfaraldrinum. Virðisrýrnun útlána vegna stöðu viðskiptavina félagsins í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum var talsverð og við höfum unnið náið með þessum viðskiptavinum okkar við að finna viðunandi úrlausn.

Eins og tilkynnt var í nóvember hafa stjórnir Kviku banka, TM og Lykils tekið ákvörðun um að sameina félögin og það liggur fyrir að í þeim samruna felast gríðarleg tækifæri fyrir öll félögin, ekki síst Lykil fjármögnun. Einn stærsti hluti áætlaðrar kostnaðarsamlegðar kemur til vegna hagkvæmari fjármögnunar samstæðunnar, sem mun styrkja verulega stöðu Lykils.

Hvernig horfir árið 2021 við þér í rekstrinum?

Sameining þessara þriggja félaga og samþætting starfseminnar verður án efa stærsta verkefni ársins 2021 að því gefnu að hluthafar félaganna, FME og Samkeppniseftirlitið samþykki samrunann og mikilvægt er að vanda til allra verka. Félagið verður meðal þeirra stærstu í kauphöllinni og í stakk búið að veita viðskiptavinum sínum mjög fjölbreytta þjónustu á nær öllum sviðum fjármála- og tryggingaþjónustu. Verkefni ársins 2021 verða því ærin ef fram fer sem horfir.