Búist er við hóf­legum efna­hags­bata á næstu árum sam­kvæmt nýjustu hag­spá Hag­fræði­deildar Lands­bankans en deildin telur að hag­vöxtur næstu ára verði studdur af lágum en sjálf­bærum vexti einka­neyslu, auknum opin­berum fjár­festingum, vaxandi út­flutning og við­snúningi í at­vinnu­vega­fjár­festingu.

Sam­kvæmt spánni er gert ráð fyrir að lands­fram­leiðsla dragist saman á þessu ári og að hag­vöxtur verði nei­kvæður um 0,4 prósent. Þá er búist við að hag­vöxtur verði já­kvæður um tvö prósent árið 2020 og heldur meiri á árunum 2021 og 2022. Einnig er gert ráð fyrir að verð­bólga verði ná­lægt verð­bólgu­mark­miði Seðla­bankans og vextir lágir.

Kaupmáttur launa aldrei verið meiri

„Lokum hag­vaxtar­skeiða á Ís­landi hefur oft fylgt erfitt að­lögunar­tíma­bil vegna ó­jafn­vægis sem byggst hefur upp á góð­æris­árunum. Því er þó ekki þannig farið í þetta skiptið,“ segir Daníel Svavars­son, for­stöðu­maður Hag­fræði­deildar Lands­bankans, í til­kynningu.

Daníel segir stöðu fyrir­tækja og heimila al­mennt nokkuð góða ef horft er til eigna og skuld­setninga. „Þá hefur kaup­máttur launa aldrei verið meiri, staða ríkis­sjóðs er mjög sterk og staða sveitar­fé­laga hefur al­mennt batnað. Þá hefur Seðla­bankinn byggt upp mjög myndar­legan ó­skuld­settan gjald­eyris­vara­sjóð sem er mikil breyting frá því sem áður var. Þar að auki styður af­gangur á utan­ríkis­við­skiptum við gengi krónunnar.“

Samdráttur víða og atvinnuleysi eykst

Gert er ráð fyrir að opinber fjárfesting muni aukast næstu ár en spáð er 9,5 prósent samdrætti í heildarfjárfestingum á þessu ári. Gangi sú spá eftir verður um að ræða mesta samdrátt í fjárfestingum síðan 2009. Einnig er gert ráð fyrir tæplega sex prósent samdrætti í útflutningi í ár, sem skýrist fyrst og fremst af gjalþroti WOW Air og samdrætti í ferðaþjónustu, en haldi síðan áfram að vaxa næstu ár. Sama mun vera uppi á teningnum fyrir innflutning.

Þá er reiknað með að fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukist í ár og á því næsta en gert er ráð fyrir litlum breytingum árin þar á eftir. Þannig mun draga úr þeirri aukningu íbúðarfjárfestinga sem einkennt hefur síðustu ár. Talið er að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstunni en þó ekki eins mikið og reikna mátti með á tímabili.