Taktikal, nýsköpunarfyrirtæki á sviði hugbúnaðarlausna fyrir rafræna samninga, hlaut nýverið hæstu einkunn í ríkisútboði fyrir rammasamning ríkisins og sveitarfélaga í útboði um rafrænar undirskriftir og traustþjónustur sem boðið var út á Íslandi og á Evrópska Efnahagssvæðinu. Innlendir og erlendir aðilar buðu í samninginn. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Um er að ræða rammasamning um hugbúnaðarlausnir til rafrænna undirskrifta fyrir opinberar stofnanir og sveitarfélög. Opinberir aðilar hafa síðastliðin misseri í auknum mæli verið að nýta sér tæknina til að hagræða og bæta þjónustu við sína viðskiptavini.

Í tilkynningu segir að það sé ekki sjálfgefið fyrir íslenskt nýsköpunarfyrirtæki að geta keppt við stór erlend fyrirtæki á markaði í miklum vexti.

Lausnir Taktikal eru nú þegar í notkun hjá fjölda fyrirtækja og opinberra aðila þar sem viðskiptavinir geta nú skrifað undir samninga, fyllt út eyðublöð og fjölbreyttar umsóknir allt með rafrænum hætti. Með rafrænum undirskriftum geta algeng afgreiðsluferli orðið rafræn frá upphafi til enda sem þýðir mikla hagræðingu og skilar sér í hraðari og skilvirkari afgreiðslu, fækkun bílferða auk þess að pappírsnotkun og prentkostnaður heyrir sögunni til.