Sjö sprota­fyrir­tæki hafa verið valin til þátt­töku í Hringiðu 2023, við­skipta­hraðal og sam­starfs­vett­vang fyrir fyrir­tæki á Ís­landi, sem setja allan þungann á hring­rásar­hag­kerfið og tryggja að auð­lindum sé haldið í hag­kerfinu.

Hring­iða byggir á al­þjóð­legri fyrir­mynd og er um að ræða sann­reynt ferli þar sem sprota­fyrir­tækjum er veittur að­gangur að mark­vissri þjálfun og breiðu tengsla­neti sér­fræðinga úr at­vinnu­lífinu.

Yfir­ferð um­sókna var í höndum stýri­hóps, sem er sam­settur úr full­trúum bak­hjarla og sam­starfs­aðila Hringiðu. Í hópnum er fólk úr at­vinnu- og við­skipta­lífinu sem starfar við eflingu hring­rásar­hag­kerfisins og grænna lausna. Leitast var eftir fjöl­breyttum og efni­legum teymum til að takast á við á­skoranir í lofts­lags­málum með hring­rásar­hag­kerfið að leiðar­ljósi.

Um­ræðan um hring­rásar­hag­kerfið hefur verið í brenni­depli undan­farin ár og verður sí­fellt meira á­ríðandi með hverju árinu sem líður. Hring­iða er þarft verk­efni í þeirri um­ræðu og hefur á stuttum tíma náð að festa sig í sessi sem bjarg­ráð til að auð­velda sprota­fyrir­tækjum að draga fram og þróa lausnir við á­skorunum tengdum lofts­lags­málum og skipa sér í for­ystu á al­þjóða­vísu í um­hverfis­málum.

“Hraðallinn er öflugur sam­starfs­vett­vangur hring­rásar­fyrir­tækja á Ís­landi sem gefur ein­stak­lingum tæki­færi á að kynnast öðru fólki sem hefur á­huga og starfa innan hring­rásar­hag­kerfisins. Þátt­tak­endur Hringiðu öðlast þannig breitt tengsla­net leið­bein­enda úr at­vinnu­lífinu auk þess að verða í lokin í stakk búin að sækja um styrki í Evrópu­sjóði, svo sem LIFE og Horizon Europe,” segir Kol­finna Kristínar­dóttir, verk­efna­stjóri Hringiðu.

Sprota­fyrir­tækin sem taka þátt í Hringiðu eru eftir­farandi:

Mar Eco
Mar Eco stendur fyrir Marine Ecolocial Solutions en mark­miðið er að vinna að um­hverfis­vænum lausnum í fram­leiðslu og notkun veiðar­færa. Notast er við endur­unnið plastrusl úr sjó sem styður við bláa hag­kerfið og um­hverfis­vænar veiðar.

Melta
Melta býður upp á hring­rásar­þjónustu og fram­leiðslu á líf­rænum á­burði úr líf­úr­gangi í dreif­býlum og sveitar­fé­lögum.

Orb
Orb þróar tækni til að mæla kol­efnis­bindingu skóga á ó­dýran og að­gengi­legan hátt til að stuðla að á­byrgri kol­efnis­jöfnun og fram­leiðslu vottaðra kol­efnis­eininga.

Resea Ener­gy
Resea Ener­gy er rann­sóknar- og þróunar­fyrir­tæki sem stefnir á fram­leiðslu á lí­felds­neyti úr hrati frá ræktuðu þangi.

Alor
Alor vinnur að þróun og fram­leiðslu á um­hverfis­vænum ál­raf­hlöðum og orku­geymslum af mis­munandi stærðum þ.e. frá litlum raf­hlöðum og raf­geymum yfir í stórar orku­geymslur í gáma­stærðum.

Bamba­hús
Bamba­hús eru gróður­hús sem stuðlar að eflingu hring­rásar­hag­kerfisins þar sem endur­nýttar eru vökva­um­búðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar. Húsin eru létt, traust, fyrna­sterk og sér­hönnuð með ís­lenskt veður­far í huga.

Muna­safn RVK Tool Library
Hring­rásar­safnið veitir sam­fé­lögum sann­gjarnan og fjár­hags­legan að­gang að tólum og öðrum munum.