Síðustu vikur og mánuði hefur orðið sprenging í sölu á blómkáli. Svo mikil er ásóknin að einn stærsti innflutningsaðili grænmetis á Íslandi, Bananar ehf, þurfti á dögunum að flytja blómkál með flugvél beint frá Hollandi - en grænmetið kemur venjulega með skipum. með reglubundnum hætti. Framkvæmdastjóri IKEA segir við Fréttablaðið að sú staða hafi komið upp á veitingasviði fyrirtækisins að erfitt sé að fá blómkál.

Viðmælendum Fréttablaðsins; tveimur stórum innflytjendum grænmetis og Þórarni Ævarssyni í IKEA, ber saman um að skyndileg aukin ásókn Íslendinga í blómkál megi rekja til ketó-mataræðis og eða vinsælda lágkolvetnafæðis.

Sjá einnig: Söluaukning í kjöti og ostum vegna ketó

Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana, segir við Fréttablaðið að söluaukningin á blómkáli sé mjög mikil. Hann segist áætla að salan hafi aukist um helming, jafnvel 50-60%. Fyrirtækið hafi þó ekki skort blómkál, þó örfáir dagar hafi stundum liðið á milli þess sem upplagið klárast og þar til næsta sending kemur. Um daginn hafi þó komið upp sú staða að sérpanta þurfti blómkál með flugvél frá Hollandi. „Það kom ein vika sem það kláraðist hjá okkur. En það er enginn skortur á framboði,“ segir hann um markað með blómkál í Evrópu. Kjartan segist aðspurður hafa orðið var við almenna aukningu á neyslu grænmetis.

Í svipaðan streng tekur Jóhannes Þór Ævarsson, framkvæmdastjóri ferskvörusviðs hjá Innnes. „Við erum að sjá mikla aukingu. Janúar og febrúar fara miklu sterkar af stað en við reiknuðum með. Hann segir að í janúar og febrúar af þessu ári sé sala á blómkáli 40% meiri en í janúar og febrúar á síðasta ári.

Blómkál er þeim kostum búið að vera afar kolvetnasnautt grænmeti. Í 100 grömmum eru aðeins 1,8 grömm af kolvetnum. Þeir sem aðhyllast ketógenískt mataræði - oftast til að léttast - takmarka neyslu kolvetna jafnan við 20 grömm á dag.

Fleiri tegundir grænmetis eru þessum eiginleikum gæddir. Þar á meðal er spergilkál. Sala á spergilkáli hefur hjá Innnesi aukist um 19% í janúar og febrúar, frá fyrra ári. Merkjanleg aukning sé líka í sölu á kúrbít og eggaldin. Hvoru tveggja eru afurðir með mjög litlum kolvetnum.

IKEA hefur nú í febrúar boðið upp á ketó-rétti á matseðli, þar sem kartöflumús eða kartöflum er skipt út fyrir blómkálsmús. Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum hafa ketó-réttinir verið afar vinsælir. Hann segist hafa fengið þau skilaboð úr eldhúsinu hjá sér að eriðlega hafi gengið að fá blómkál síðustu daga.

Sjá einnig: Er sjálfur á ketó og afhjúpar allt um brúnu sósuna

Jóhannes Þór hjá Innnesi segir að mikið svigrúm sé til aukinnar framleiðslu á íslensku grænmeti. Hann segir að í fyrra hafi Inness fengið fyrstu sendinguna af íslensku blómkáli í byrjun ágúst. Blómkálið hafi klárast í lok september eða byrjun október. Hann tekur hins vegar fram að uppskeran hafi verið afar rýr í fyrrasumar, vegna tíðarfars.

Hina mánuði ársins flytur Innnes inn kálið frá Hollandi og Spáni. Jóhannes segir að þar séu afar vandaðir framleiðendur sem skili af sér úrvalsvöru. Hann segir hins vegar að greinileg efitrspurn sé eftir íslensku grænmeti - þó það geti verið dýrara. Hann kallar eftir því að fleiri bændur hefji framleiðslu á blómkáli og öðru íslensku grænmeti. Hægt væri að selja mun meira af íslensku grænmeti en gert er í dag. „Það er markaður fyrir miklu meira af blómkáli og spergilkáli, svo dæmi séu tekin.“

Spurður hvort sala ávaxta, sem margir hverjir eru mjög kolvetnaríkir - og þar með á bannlista hjá ketó-óðum - hafi dregist saman svarar hann því til að svo sé ekki. „Salan fer ekki merkjanlega niður,“ segir hann.