Heildar greiðslu­korta­velta hér­lendis í nóvember nam rúmum 108,7 milljörðum króna og jókst um 20,7 prósent á milli ára miðað við breyti­legt verð­lag. 12,6 prósent af allri greiðslu­korta­veltu í verslun fór í gegnum netið í nóvember síðast­liðinn en það hlut­fall var að meðal­tali 7,3 prósent aðra mánuði ársins í ár.

Hlut­fall net­verslunar af heildar­veltu í verslun hefur aukist hratt undan­farin ár en árið 2017 var það einungis 2,2 prósent, að meðal­tali, á mánuði.

Í til­kynningu frá Rann­sóknar­setri verslunar kemur fram að gögn þeirra sýni ó­tví­rætt að nóvember er net­verslunar mánuður ársins. Frá árinu 2017 hefur nóvember verið stærsti mánuður ársins í inn­lendri net­verslun en gögn RSV ná aftur til mars­mánaðar það árið. Með til­komu hinna þekktu af­sláttar­daga nóvember­mánaðar hefur korta­velta á netinu í nóvember aukist til muna en er þá átt við dag ein­hleypra, svartan föstu­dag og staf­rænan mánu­dag.

Al­ger sprenging varð í net­verslun í nóvember árið 2020 og 112,5 prósent aukning var í net­verslun á milli októ­ber- og nóvember­mánaðar í fyrra. Í ár tvö­faldaðist veltan næstum því, en 97 prósent aukning var í net­verslun á milli októ­ber- og nóvember­mánaðar þetta árið.

Mest var aukningin í ár í gjafa- og minja­gripa­verslunum eða alls 239 prósent, raf- og heimilis­tækja­verslunum eða 225 prósent og fata­verslunum alls 146 prósent.

Í til­kynningu kemur þó einnig fram að sam­dráttur hafi verið í net­verslun á milli ára en greiðslu­korta­velta í verslun á netinu var 0,1 prósent minni í nóvember síðast­liðnum en hún var í sama mánuði í fyrra miðað við breyti­legt verð­lag.

Myndin hér fyrir neðan sýnir árs­breytingu greiðslu­korta­veltu í net­verslun og fram­lag tegunda verslana til breytingarinnar.

Sam­dráttur á milli ára var mestur í gjafa- og minja­gripa­verslunum (-51,8%), lyfja-, heilsu- og snyrti­vöru­verslunum (-21,2%) og fata­verslunum (-16%). Aukning varð á milli ára í net­verslun bóka, blaða og hljóm­plötu­verslana, um 8,4%, miðað við breyti­legt verð­lag. Þá jókst önnur verslun á netinu um 16,7%.

Nánar hér á heima­síðu Rann­sóknar­seturs verslunar.