Erlent

Sports Direct kaupir House of Fraser fyrir 90 milljónir punda

Íþróttavörukeðja breska kaupsýslumannsins Mikes Ashleys hefur keypt House of Fraser. Kaupverðið er 90 milljónir punda sem jafngildir um 12,4 milljörðum króna.

Verslanakeðjan House of Fraser er komin í eigu Sports Direct. Fréttablaðið/Getty

Íþróttavörukeðjan Sports Direct, sem er í eigu breska kaupsýslumannsins Mikes Ashleys, hefur samþykkt að kaupa verslanakeðjuna House of Fraser fyrir 90 milljónir punda, jafnvirði 12,4 milljarða króna.

Í stuttri tilkynningu frá forsvarsmönnum Sports Direct kom fram að keðjan hefði keypt allar verslanir House of Fraser í Bretlandi, vörumerki keðjunnar og vörulager hennar. Sports Direct á fyrir kaupin um 11 prósenta hlut í bresku verslanakeðjunni.

Fyrr í dag óskaði House of Fraser eftir greiðslustöðvun eftir að viðræður á milli stjórnenda verslanakeðjunnar og lánardrottna hennar runnu út í sandinn. Kínverski skórisinn C. Banner féll nýverið frá áformum sínum um að leggja verslanakeðjunni til 70 milljónir punda í formi hlutafjáraukningar og eignast þannig meirihluta í versluninni.

Núverandi eigandi House of Fraser, kínverska samsteypan Nanjing Xinjiekou Department Store, sem keypti keðjuna árið 2014, hefur lagt henni til yfir 30 milljónir punda á undanförnum mánuðum til þess að halda rekstrinum gangandi.

Fjárfestingasjóðirnir Alteri og Endless og hópur birgja undir stjórn kaupsýslumannsins Philips Days gerðu einnig tilboð í House of Fraser. Samkvæmt heimildum Financial Times þótti Sports Direct líklegasti kaupandinn allt frá upphafi söluferlisins.

Mike Ashley er einn umtalaðasti kaupsýslumaðurinn í bresku efnahagslífi. Yfir þrjátíu ár eru síðan hann stofnaði Sports Direct, þá aðeins átján ára að aldri, en íþróttavörukeðjan er nú metin á um 1,9 milljarða punda.

Hann er auk þess eini eigandi enska knattspyrnufélagsins Newcastle United og á meðal annars eignarhlut í Debenhams, French Connection og Flannels, svo eitthvað sé nefnt.

Um 17.500 manns starfa hjá House of Fraser en verslanakeðjan hóf starfsemi árið 1849.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Erlent

Hagvöxtur í Kína í áratugalágmarki

Erlent

Banka­stjórinn biður Malasíu­búa af­sökunar

Erlent

Minni eignir í stýringu BlackRock

Auglýsing

Nýjast

Samsett hlutfall VÍS endaði í 98,5 prósentum

Guide to Iceland stefnir inn á gistimarkaðinn

Ásta Þöll og Elísabet til liðs við Advania

Þóranna ráðin markaðsstjóri SVÞ

Í samstarf við risa?

Þróa leiðir fyrir markaðssetningu í Kína

Auglýsing