Nýsköpunarfyrirtækið Spectaflow hefur fengið 260 milljóna króna fjármögnun til vaxtar. Vísisjóðurinn Frumtak Ventures leiddi fjármögnunina en Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sem fjárfesti í fyrirtækinu fyrr á árinu, tók einnig þátt.

Þetta kemur fram í samtali Markaðarins við Pétur Orra Sæmundsen, framkvæmdastjóra og meðstofnanda Spectaflow. Aðrir stofnendur eru Frans Veigar Garðarsson og Erlendur Steinn Guðnason. Fyrirtækið hefur þróað lausn fyrir hótel og fyrirtæki sem leigja út íbúðir til ferðamanna sem auðveldar starfsmönnum að skipuleggja vinnu við þrif á herbergjum, vaktaplan, herbergisumsjón og viðhald fasteigna.

Á meðal annarra hluthafa Spect­aflow má nefna Grím Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, hjónin Lindu Björk Ólafsdóttur og Boga Þór Siguroddsson, sem eiga meðal annars Johan Rönning, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP Games, og Þorstein Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, sem situr í stjórn Spectaflow. „Fyrirtækið var í upphafi fjármagnað af englafjárfestum áður en Nýsköpunarsjóðurinn og Frumtak komu til sögunnar,“ segir Pétur Orri.

Pétur Orri segir að markaðurinn sem Spectaflow horfi til sé um 10 milljarðar Bandaríkjadala að stærð á að giska og unnið sé að því að fyrirtækið muni velta um 48 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði ríflega sex milljarða króna, árið 2028. Gert sé ráð fyrir að sprotinn verði rekinn með hagnaði frá árinu 2024.

Hugbúnaðarlausn Spectaflow var hleypt af stokkunum í júní og þjónar nú um 100 hótelum í fimm löndum. Þar á meðal má nefna samstæðuna Keahotels og Wander Camp sem býður upp á gistingu í lúxustjöldum í helstu þjóðgörðum Bandaríkjanna.

Nýta á fjármagnið til að fjölga starfsmönnum Spectaflow úr þremur í tíu við lok árs. Um helmingur nýju starfsmannanna mun sinna markaðsmálum og helmingur þróunarvinnu. „Við höfum verið í þróunarvinnu undanfarin þrjú ár í nánu samstarfi við hótel og gististaði og fengið stuðning frá fjárfestum til þess,“ segir hann.

„Við höfum verið í þróunarvinnu undanfarin þrjú ár í nánu samstarfi við hótel og gististaði og fengið stuðning frá fjárfestum til þess.“

Pétur Orri segir að hótel séu töluvert á eftir öðrum atvinnugreinum þegar kemur að tækni. Fæst hótel nýti sérhæfðan hugbúnað til að stýra þrifum og fleiru. Og þær hugbúnaðarlausnir sem fyrir séu á markaðnum séu fremur frumstæðar. „Það eru gríðarleg tækifæri í hagræðingu á þessum markaði en um 15 prósent af tíma starfsfólks í herbergisumsjón fara í að finna hvaða herbergi á að þrífa næst. Við erum að breyta markaðnum og bjóðum upp á næstu kynslóðar hugbúnaðarlausn,“ segir hann.

Að sögn Péturs Orra eru tvær leiðir til að selja vöruna: Annars vegar að semja við fyrirtæki sem selja hótelbókunarkerfi um að bjóða upp á lausnina undir sínu vörumerki og hugbúnaðarfyrirtækin deili tekjum. „Bókunarkerfið er hjartað í rekstri hótela,“ segir hann og nefnir að til séu alls kyns lausnir fyrir hótel sem tengist slíkum kerfum.

Hins vegar sé lausnin markaðssett undir eigin vörumerki, Sweeply. „Þá er varan seld á markaðstorgi sem tengt er hótelbókunarkerfum,“ segir hann.

Pétur Orri segir að unnið sé að því að Spectaflow tengist sem flestum bókunarkerfum því það gefi fyrirtækinu aðgang að æ fleiri viðskiptavinum. „Það eru yfir 700 þúsund hótel í heiminum sem nýta yfir eitt þúsund bókunarkerfi. Allt frá litlum kerfum sem sérhæfa sig í að þjónusta hótel sem eru með minna en 15 herbergi yfir í kerfi sem styðja við umsvifamikinn alþjóðlegan rekstur. Okkar áætlanir gera ráð fyrir að tengjast um 35-40 kerfum á næstu fjórum árum, bæði stórum og smáum, og að við munum þjóna yfir tólf þúsund hótelum.“

Stýrði Kolibri um árabil

Pétur Orri hefur starfað í hugbúnaðargeiranum í tvo áratugi. Hann er einn af fjórum stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Kolibri og var framkvæmdastjóri þess á árunum 2007-2015. „Mig langaði í nýjar áskoranir, að þróa vöru og stýra fyrirtæki sem gæti skalast hratt en rekstur Kolibri byggir á útseldri vinnu og hjá þannig fyrirtækjum eru alltaf meiri stærðartakmarkanir,“ segir hann aðspurður um hvers vegna hann fór frá Kolibri í að setja á stofn sprotafyrirtæki.