Sameinuðu þjóðirnar birtu á dögunum skýrslu með niðurstöðum úr ítarlegustu athugun á ástandi jarðar sem hefur verið unnin til þessa. Samkvæmt henni er samfélögum manna alvarlega ógnað af hraðri hnignun vistkerfis jarðar meðal annars vegna stóraukins útblásturs koltvísýrings. Hún setur fyrri skýrslu um svokallaða 1,5 gráðu sviðsmynd í ákveðið samhengi, þar sem dregin er sú ályktun að eftir einungis fáa áratugi verði hamfarir vegna loftslagsbreytinga nema mannkynið grípi í taumana sem allra fyrst.

Þrátt fyrir þessar spár taka margir sparifjáreigendur ekkert tillit til þróunar í loftslagsmálum í fjárfestingum sínum. Enn er algengt að lífeyrissparnaði eða öðrum sparnaði sé beint í starfsemi og fyrirtæki sem hafa neikvæð áhrif á lífríki jarðar. Kolaiðnaðurinn einn og sér á þátt í rúmlega 800.000 ótímabærum dauðsföllum árlega. Eignir sem drepa eru ekki vænlegur fjárfestingakostur.

Góðir fjárfestingarkostir

Sérfræðingar í eignastýringu sjá í auknum mæli tækifæri í uppbyggingu eignasafna sem samræmast sjálfbærnimarkmiðum. Meðal allra öflugustu tækja sem við getum beitt í baráttunni við loftslagsbreytingar eru einmitt alþjóðlegir fjármálamarkaðir. Fyrirtæki með háa sjálfbærnieinkunn eru oftast fjárhagslega sterk og vel í stakk búin til að hagnýta þróun og strauma í loftslags- og sjálfbærnimálum. Til lengri tíma litið má ljóst telja að fyrirtæki sem skapa sér stefnu í samræmi við Parísarsamkomulagið muni skila betri arðsemi en önnur.

Umhverfissóðar útilokaðir

Árið 2013 hófu norræn fjármálafyrirtæki, með Storebrand í broddi fylkingar, að útiloka kola- og námufyrirtæki úr eignasöfnum sínum. Í framhaldinu hafa stórir fjárfestar eins og norski olíusjóðurinn gert slíkt hið sama. Þessi þróun er afar mikilvæg. Lífeyrissjóðir standa að baki um það bil helmingi allra kauphallarviðskipta í heiminum. Breytt fjárfestingarviðmið þeirra munu meðal annars hafa afgerandi áhrif á kolaiðnaðinn og gera loks sýnilega þá loftslagsáhættu sem kolefnisfrek hagkerfi standa frammi fyrir. Kolaiðnaðurinn er þegar farinn að finna fyrir þessu. Það skiptir ekki máli hvað Donald Trump gerir til að vernda deyjandi fyrirtæki; hann mun ekki geta stöðvað það skriðufall sem fjárfestar geta komið af stað.

Útilokun umhverfissóða úr eignasöfnum er lykilforsenda þess að færa heiminn nær loftslagsstöðugleika en hún nægir ekki ein og sér. Beinna aðgerða er þörf með virkri fjárfestingu í fyrirtækjum sem stuðla að sjálfbærni. Samkvæmt nýlegri skýrslu Eurosif, sem eru evrópsk samtök um ábyrgar fjárfestingar, fimmfaldaðist svokölluð áhrifafjárfesting (e. impact investing) milli 2013 og 2017. Slíkar tölur eru hvetjandi en brýnt er að stórauka áhrifafjárfestingar á næstu árum.

Tækifærið er einstakt

Fjárfestingar í sjálfbærum fyrirtækjum og atvinnugreinum skila almennt góðri ávöxtun, vaxtarmöguleikar eru miklir og einfaldara er að kortleggja og stýra áhættunni sem fylgir þeim. Fjárfestar leita í auknum mæli í sólar- og vindorku og aðra hreina orkutækni með það að markmiði að vernda náttúruna og skapa sjálfbæran hagvöxt. Sparnaður okkar, lífeyrir og fjárfestingar eru eitt öflugasta tæki sem við getum beitt gegn þeim ógnum sem lýst er í skýrslum SÞ. Við megum ekki lengur horfa framhjá þeim áhrifum sem við getum haft með því að færa fjármagn úr kolefnisfrekum greinum yfir í hreina orku framtíðarinnar. Sjálfbærar fjárfestingar eru þegar farnar að skila betri ávöxtun. Þetta er einstakt tækifæri til að fjárfesta skynsamlega og láta gott af sér leiða.

Höfundar eru framkvæmdastjóri Íslandssjóða og forstjóri eignastýringar Storebrand.