Sparisjóður Strandamanna gerðist að mati Seðlabanka Íslands brotlegur við alls sjö greinar laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á síðusta ári. Sparisjóðurinn og Seðlabanki Íslands luku málinu með sátt sem fól í sér 2,5 milljóna króna sektargreiðslu af hálfu Sparisjóðsins.

Samkvæmt tilkynningu frá Seðlabanka Íslands voru vankantar á áhættumati, verkferlum og stefnu bankans sem áðurgreind lög kveða á um: „Þá var framkvæmd sparisjóðsins á áreiðanleikakönnunum talin ábótavant. Í 10 tilfellum af 15 hafði ekki verið aflað upplýsinga um raunverulega eigendur og í 13 tilfellum af 15 höfðu upplýsingar um raunverulega eigendur ekki verið sannreyndar. Þá höfðu lögaðilar, raunverulegir eigendur, prókúruhafar og aðrir þeir sem hafa sérstaka heimild til að koma fram fyrir hönd viðskiptavinar í sjö tilfellum af níu ekki sannað á sér deili með fullnægjandi hætti,“ segir í umfjöllun Seðlabankans.

Höfuðstöðvar Sparisjóðs Strandamanna á Hólmavík. Þar starfa alls sex manns.
Sparisjóður Strandamanna

Jafnframt eru annmarkar sagðir hafa verið á áreiðanleikakönnun er sneri að tilteknum viðskiptamanni sem sér um innheimtu smálána.

„Þá viðurkenndi sparisjóðurinn brot gegn 7. gr. laga nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna, með því að hafa ekki haft til staðar viðeigandi eftirlitskerfi til að meta hvort viðskiptamenn væru á lista yfir þvingunaraðgerðir. Sparisjóðnum var þó ekki gerð sekt vegna þess brots,“ segir Seðlabankinn.

Sparisjóður Strandamanna var stofnaður seint á 19.öld, en fram til ársins 1995 hét hann Sparisjóður Kirkjubóls- og Fellshreppa. Sjóðurinn er því meðal allra elstu fjármálafyrirtækja landsins. Höfuðstöðvar Sparisjóðs Strandamanna eru á Hólmavík. Í dag starfa sex manns hjá sparisjóðnum.