Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram tillögu á fundi borgarstjórnar í dag um að allir verkþættir Stafrænnar umbreytingar, 10 milljarða króna verkefni borgarinnar, verði boðnir út.
Líkt og Fréttablaðið fjallaði um í fyrra snýst verkefnið um að nútímavæða þjónustu, uppfæra tölvur í skólum og koma á fót rafrænni lýðræðisgátt.
„Þegar verkkaupinn er sjálfur að gera hlutina þá er ekkert eftirlit,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
„Við erum alltaf að tala um að efla hugbúnaðargeirann. Eins og staðan er í dag þá er Reykjavíkurborg að yfirbjóða starfsfólk sem gætu annars verið að starfa hjá sprotafyrirtækjum.“
Er einnig vitnað í gagnrýni Samtaka iðnaðarins á verkefnið, samtökin hafa sagt að ekkert samráð hafi verið haft við upplýsingatækniiðnaðinn. Það skjóti skökku við að „Það er fráleitt að Reykjavíkurborg sé að breytast í kaupfélag sem verslar við sjálfa sig,“ segir Eyþór.
Styrkur sé á gráu svæði

Verkefnið hefur þegar fengið 300 milljóna króna styrk frá Bloomberg-stofnuninni. Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, leggur í dag fram tillögu um að styrknum verði hafnað þar sem styrkurinn sé á gráu svæði lagalega og vafasamt sé að erlendir aðilar geti haft áhrif á sveitarstjórnir með peningagjöfum.
Kristalli tvískinnung Sjálfstæðisflokksins
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður nýsköpunarráðs borgarinnar, segir búið sé að blása upp málið með rangfærslum. „Af þeim 3,2 milljörðum sem fara í þetta verkefni á þessu ári eru 2,7 milljarðar sem fara í útboð og innkaup. Af þeim 10 milljörðum sem fara í stafræna umbreytingu á næstu þremur árum fara minnst 7,7 milljarðar í innkaup og útboð,“ segir hún. „Það er mikill misskilningur að við séum ekki að nýta okkur þekkingu á markaðnum.“
Dóra Björt segir að þeir hlutar verkefnisins sem verði unnir innan borgarinnar snúi ekki allir að upplýsingatækni, stafræn umbreyting sé miklu meira en það. „Við stöndum alveg með heilbrigðum markaði, en okkar hollusta liggur hjá íbúanum og því að fara vel með skattfé almennings.“
Hún segir málið kristalla tvískinnung Sjálfstæðisflokksins. „Þau vilja sífellt spara pening jafnvel þó það komi niður á umhverfinu, einstaklingum sem standa höllum fæti, hælisleitendum. Um leið og það gengur að einhverju leyti í berhögg við hagsmuni þeirra vina og vandamanna þá gengur það ekki fyrir,“ segir Dóra Björt. „Við erum að horfa í hverja krónu, erum búin að gera greiningar, áhættumöt og ráðfæra okkur við helstu sérfræðinga í heimi. Samt virðist Sjálfstæðisflokkurinn vita betur vegna þess að það eru einhverjir aðilar þarna úti sem eru ósáttir við að einhverjar krónur séu ekki að renna í vasa ákveðinna fyrirtækja.“