Sölvi Rúnar Pétursson tók við stöðu markaðsstjóra Justikal í nóvember á síðasta ári. Áður starfaði hann í rúm fjögur ár hjá auglýsingastofunni ENNEMM og þar áður starfaði hann við markaðsmál í Kaupmannahöfn fyrir DigitasLBi Nordics, Evendo og Lessor A/S.
Nýsköpunarfyrirtækið Justikal hefur á síðustu árum hannað hugbúnað sem gerir lögmönnum og öðrum aðilum kleift að senda gögn rafrænt til dómstóla. „Lausnin er þannig uppbyggð að málsaðilar fá tilkynningar þegar eitthvað nýtt gerist í þeirra málum og þeir eru því alltaf upplýstir um framvindu sinna mála. Lausnin miðar að því að auðvelda störf allra aðila sem koma að dómsmálum og gæti sparað íslensku samfélagi háar fjárhæðir á ári hverju,“ segir Sölvi.
„Við erum á ákaflega spennandi stað í dag með tilbúna lausn fyrir markaðinn og stefnum á að fjölga notendum hratt innanlands á næstu vikum og mánuðum þegar fleiri og fleiri munu sjá þann ábata sem kerfið skilar.
Á næstu misserum munum við síðan fjölga starfsmönnum, stórefla þróun og byggja upp alþjóðlegt sölu- og markaðsteymi til að sækja á erlenda markaði en engar sambærilegar lausnir eru í boði erlendis sem gerir vegferðina ákaflega spennandi,“ segir hann.
Hver eru helstu áhugamálin?
„Ég hef alltaf haft gaman af því að hreyfa mig en hreyfing hefur alltaf verið stór hluti af mínu lífi, sama í hvaða formi hún er. Í augnablikinu reyni ég að fara sem oftast með krakkana upp í Bláfjöll á skíði eða á snjóbretti við góðar undirtektir. Þegar ég var yngri var ég á kafi í borðtennis en þar hefur elsti sonur minn tekið við keflinu með miklum sóma.
Ég hef einnig mjög gaman af öllum ferðalögum innanlands og erlendis og að njóta góðra stunda með fjölskyldu og vinum.“
Hver er uppáhaldsbókin?
„Ég á í raun enga uppáhaldsbók og myndi seint flokka mig sem lestrarhest en ég segi stundum að ég sé að spara lesturinn til efri áranna.“
Besta sumarfríið sem þú hefur farið í?
„Það er alltaf nærtækast að nefna það sem maður gerði síðasta sumar en við vorum svo heppin að fá að fagna tveimur stórafmælum erlendis með stórfjölskyldum okkar. Annars vegar fögnuðum við 70 ára afmæli pabba á Tenerife og hins vegar 60 ára afmæli tengdapabba í Salou á Spáni. Báðar ferðir voru ákaf lega vel heppnaðar en þrátt fyrir að Covid hafi sett svip sinn á aðra ferðina þá náðum við að búa til dýrmætar minningar fyrir okkur og krakkana.“ n