Apple hagnaðist um tæpa 20 milljarða Bandaríkjadala á ársfjórðungnum, en heildarsala fyrirtækisins nam 83 milljörðum dala. Hagnaður dróst saman um tæp 11 prósent milli ára, aðallega vegna aukins kostnaðar, en greinendur telja árangurinn samt góðs viti vegna þess hve ytri aðstæður voru erfiðar.

Til samanburðar minnkaði hagnaður Meta (móðurfélags Facebook) og Alphabet (móðurfélags Google) talsvert meira en þriggja fyrrnefndu félaganna, en Meta og Alphabet reiða sig að miklu leyti á auglýsingatekjur á meðan Apple, Amazon.com og Microsoft byggja meira á smásölu til viðskiptavina.

Greinendur telja góða afkomu smásala benda til þess að staða neytenda sé almennt betri en óttast var eftir heimsfaraldur og aukna verðbólgu vegna stríðsátaka, refsiaðgerða og seðlaprentunar Seðlabanka.

Tom Lee (ekki trommarinn), aðalgreinandi hjá Fundstrat Global Advisors, sagði í samtali við CNBC-sjónvarpsstöðina fyrir helgi að kreppunni á hlutabréfamörkuðum væri lokið og hlutabréf myndi slá ný met fyrir árslok, en hlutabréf náðu sínu hæsta gildi í Bandaríkjunum á fyrsta viðskiptadegi þessa árs og lækkuðu um 20 prósent fram til 17. júní. Síðan hafa hlutabréf vestra hækkað um nær 10 prósent og Tom Lee telur kreppuna vera að baki.

Svipaða sögu er að segja af Nasdaq, og til gamans má geta þess að Viðskipti með bréf Alvotech hófust á Nasdaq í New York fimmtudaginn 16. júní. Alvotech lækkaði nokkuð fyrstu vikurnar á markaði en í kjölfar fregna að nýjum líftæknihliðstæðum, sem ýmist eru að fara í prófanir eða á markað, hafa hlutabréf Alvotech tekið að hækka á nýjan leik.