Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,5 prósent á milli mánaða. Gangi spáin eftir eykst verðbólga úr 4,5 prósentum í 5 prósent í október. L

„Við teljum að helstu áhrifaþættir á verðbólguþróunina í nóvember verði reiknuð húsaleiga, bensín og dísilolía og í þriðja lagi húsgögn og heimilisbúnaður. Allir þessi liðir munu vega til hækkunar verðlags,“ segir í greiningu frá bankanum. Þeir liðir sem helst hafa áhrif til lækkunar eru matur og drykkjarvörur og kaup ökutækja.

Landsbankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga aukist um 0,4 prósent í desember, lækki um 0,2 prósent í janúar en hækki um 0,7 prósent í febrúar. Gangi spáin eftir mun verðbólgan verða 5 prósent í febrúar en verðbólga án húsnæðis 3 prósent.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59 prósent á milli mánaða í október og mældist 4,5 prósent verðbólga samanborið við 4,3 prósent í september.

„Við teljum að draga muni úr verðhækkunum á íbúðamarkaði á næstu mánuðum sem mun styðja við hjöðnun verðbólgunnar,“ segir í greiningu Landsbankans.

Fasteignaverðshækkanir hafa drifið verðbólguna áfram. Í byrjun árs var verðbólga án húsnæðis 0,4 prósentustigum hærri en verðbólga. Síðan hefur verðbólga án húsnæðis hjaðnað hraðar en verðbólgan og var í október 1,5 prósentustigi lægri.

„Við eigum von á að verðbólga án húsnæðis hækki aðeins áður en hún lækkar á ný. Þannig spáum við því að verðbólga án húsnæðis fari upp í 3,5 prósent í desember en lækki svo aftur í janúar,“ segir Hagfræðideild Landsbankans.

Fram kemur í greiningunni að töluverð óvissa sé um þróun verðbólgunnar næstu misseri en litið lengra fram í tímann geri Hagfræðideildin ráð fyrir að verðbólga bæði með og án húsnæðis nái hámarki í desember en síðan dragi nokkuð hratt úr verðbólgu á báða þessa mælikvarða.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað nær stöðugt frá því það náði lágmarki á síðasta ári í 27,4 bandaríkjadollurum í apríl. Meðalverðið það sem af er nóvember er 82,8 dollarar og hefur það ekki verið hærra eftir faraldur.

„Við spáum því að verð á bensíni og dísilolíu hækki um 2,5 prósent í nóvember. Gangi sú spá eftir mun 12 mánaða hækkun á dælueldsneyti verða rúm 24 prósent í nóvember. Á þessu tímabili mun heimsmarkaðsverð olíu hafa hækkað um 88 prósent. Minni hækkun á dælueldsneyti skýrist af því að hluti af gjaldi þess er föst krónutala og skattar,“ segir í greiningunni.

Landsbankinn bendir á að Sorpa hafi tilkynnt um 31 prósenta hækkun gjaldskrár í janúar og áætlar að áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs verði 0,11 prósent.