Spaðinn Pizza opnar sitt annað útibú í Hafnarfirði, en fyrsti staðurinn opnaði á Dalvegi í Kópavogi í maí á þessu ári. Dominos ákvað að framlengja ekki leigusamning sinn í Firðinum eftir rúmlega tuttugu ára rekstur í húsnæðinu.

„Ég fékk svo ofboðslega gott tilboð að ég gat ekki sagt nei við því. Leigusamningur Dominos rennur út um mánaðamótin og þá fáum við húsnæðið afhent. Ég er að gæla við að ná að opna fyrir áramót, reyna að ná desembertraffíkinni en það er ekki ákveðið. Þetta er gamalt húsnæði og ýmislegt sem þarf að gera, segir Þórarinn Ævarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Spaðans í samtali við Fréttablaðið.

Þórarinn hefur verið að leita að húsnæði til að opna fleiri útibú en hann setur stefnuna á jaðarhverfin fyrst. „Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Árbær og Grafarvogurinn eru þau hverfi sem ég hef verið að skoða. Ég vil opna útibú þar fyrst áður en ég opna í miðbæ Reykjavíkur."

Þórarinn Ævarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Spaðans Pizzu.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Pizzastaður í 30 ár

Dominos opnaði í Firðinum árið 1998 en þar hafði Jón Bakan áður verið til húsa í fjölda mörg ár. „Þetta er sögufrægur pizzastaður, Hafnfirðingar þekkja ekkert annað en pizzur í þessu húsnæði þannig þetta er spennandi tækifæri fyrir okkur."

Þórarinn var rekstrarstjóri hjá Dominos í mörg ár og tók m.a. við staðnum í Firðinum á sínum tíma. „Ég er bara kominn aftur á byrjunarrétt," segir Þórarinn og hlær.

Hrósar happi fyrir það sem hann er með í höndunum

Sem fyrr segir opnaði fyrsti staðurinn í Kópavogi í maí á þessu ári. Þórarinn segir að það hafi verið skrítið að koma inn á markaðinn í miðjum heimsfaraldri en að það sé búið að vera mikið að gera. „Við erum auðvitað heppin að því leyti að það er allt snertilaust hjá okkur, það er ekki hægt að borga með pening, aðeins á netinu áður, eða í sérstökum sjálfsafgreiðslukössum. Þetta var alltaf hugsað þannig frá upphafi, ég hafði ekki hugmynd um fyrir ári síðan þegar ég var að þróa hugmyndina að þetta yrði nánast skylda ári síðar.

„Ég veit að sjálfsögðu ekki hvernig hefði gengið hjá okkur ef ekki hafi verið fyrir Covid, en ég hrósa happi fyrir það sem ég er með í höndunum, segir Þórarinn að lokum.

Dominos í Firðinum, Hafnarfirði.
Fréttablaðið/aðsend