Í þjóð­hags- og verð­bólgu­spá Hag­fræði­deildar Lands­bankans fyrir árin 2020-2023 er gert ráð fyrir að lands­fram­leiðslan dragist saman um 8,5% á árinu 2020 vegna kórónu­veirufar­aldursins. Sam­dráttar­skeiðið verður til­tölu­lega stutt en þrátt fyrir veru­lega við­spyrnu næsta haust verður efna­hags­batinn hægur fyrst um sinn.

Hag­fræði­deild spáir 3,4% hag­vexti árið 2021 og um 5% ár­legum vexti árin 2022 og 2023. Spáin hljóðar upp á að at­vinnu­leysi verði að meðal­tali 7,8% á þessu ári og hækki í 8,4% árið 2021 en lækki síðan í 5,8% árið 2022 og 4,8% árið 2023.

Í spá Hag­fræði­deildar er miðað við að eitt eða fleiri bólu­efni verði sam­þykkt í kringum næstu ára­mót. Al­mennu hjarðó­næmi verði náð á Ís­landi og í helstu við­skipta­löndum okkar á þriðja árs­fjórðungi 2021 en vegna sótt­varnar­að­gerða muni er­lendum ferða­mönnum ekki fjölga fyrr en næsta haust.

„Það verður seint lögð of mikil á­hersla á að ó­vissan er gríðar­lega mikil, bæði hvað varðar þróun Co­vid-19-far­aldursins og efna­hags­legar af­leiðingar hans. Í grunn­spá okkar gerum við ráð fyrir að efna­hags­batinn hefjist á seinni helmingi næsta árs sam­hliða því sem far­aldurinn gengur niður í kjöl­far þróunar bólu­efnis og myndun hjarðó­næmis hér á landi og í helstu við­skipta­löndum Ís­lands,“ er haft eftir Daníeli Svavars­syni, for­stöðu­manni Hag­fræði­deildar.

„Í þessum efnum er ekki á vísan á róa en þetta er þó talin lík­leg þróun í ljósi stöðu bólu­efnis­rann­sókna um þessar mundir. Það stefnir í að sam­drátturinn í ár verði sá mesti frá lýð­veldis­stofnun en á móti kemur að við reiknum með að sam­dráttar­skeiðið verði stutt og til að mynda tölu­vert styttra en síðasta sam­dráttar­skeið.“

Aðrir þættir úr þjóð­hags­spá Hag­fræði­deildar Lands­bankans:

 • Gert er ráð fyr­ir að út­flutn­ing­ur á þessu ári minnki um tæp­lega 30%, að lang­mestu leyti vegna sam­drátt­ar í ferðaþjón­ustu.
 • Einka­neysla dregst sam­an um 5,5% á ár­inu sem er mesti sam­drátt­ur frá 2009.
 • Heild­ar­fjármuna­mynd­un dregst sam­an um rúm­lega 10%.
 • Sam­neysla og fjár­fest­ing­ar hins op­in­bera aukast veru­lega auk þess sem inn­flutn­ing­ur dregst sam­an um 22%, ekki síst vegna minni ferðalaga Íslend­inga er­lend­is.
 • Gert er ráð fyr­ir um hálfri millj­ón ferðamanna í ár, 650 þúsund er­lend­um ferðamönn­um á næsta ári, 1,3 millj­ón­um árið 2022 og 1,9 millj­ón­um 2023.
 • Verðbólg­an verður lít­il­lega yfir mark­miði Seðlabanka Íslands fram á seinni helm­ing næsta árs, vegna veik­ing­ar krón­unn­ar það sem af er ári, en verður að meðaltali 3,1% á næsta ári, 2,7% 2022 og 2,6% árið 2023.
 • Stýri­vext­ir verða óbreytt­ir í 1% allt næsta ár, hækka í 1,75% árið 2022 og verða 3,5% í lok árs 2023.
 • Launa­vísi­tal­an hækk­ar í takt við kjara­samn­inga, um 5,8% milli ár­anna 2019 og 2020. Hún mun svo hækka um 6,1% á ár­inu 2021, um 5% 2022 og 4% 2023.
 • Gert er ráð fyr­ir að at­vinnu­vega­fjár­fest­ing drag­ist sam­an um 16,9% á þessu ári en fari síðan vax­andi frá og með 2021.
 • Ekki er gert ráð fyr­ir að far­ald­ur­inn muni hafa telj­andi lang­tíma­áhrif á sjáv­ar­út­veg.
 • Gert er ráð fyr­ir að álfram­leiðsla drag­ist sam­an um 5,5 % á þessu ári.
 • Spáð er 16% sam­drætti í íbúðafjár­fest­ingu á þessu ári en 2-5% ár­leg­um vexti á ár­un­um 2021-2023. Íbúðaverð hækk­ar um 4,5% milli ára í ár og vöxt­ur­inn verður svo að jafnaði 4% á ári út spá­tím­ann.
 • Gert er ráð fyr­ir að halli rík­is­sjóðs á ár­un­um 2020 og 2021 nálg­ist sam­tals 600 millj­arða króna.
 • Þrátt fyr­ir fall í út­flutn­ingi verður lít­ils hátt­ar af­gang­ur af viðskipta­jöfnuði í ár (+0,1%), minni­hátt­ar halli á næsta ári (-0,3%) en vax­andi af­gang­ur árin 2022 (+1,4%) og 2023 (+3,4%).