Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 prósent í febrúar frá fyrri mánuði en Hagstofa Íslands birtir niðurstöður úr febrúarmælingu vísitölunnar undir lok mánaðarins. Gangi spáin eftir hækkar verðbólgan úr 1,7 prósentum í 1,9 prósent.

Í umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans er tekið fram að janúarmæling vísitölunnar hafi komið nokkuð á óvart en vísitalan lækkaði þá um 0,74 prósent á milli mánaða. Til samanburðar höfðu spár legið á bilinu -0,5 prósent til -0,4 prósent.

Skýrðist munurinn á mælingunni og spá hagfræðideildarinnar af því að flugfargjöld til útlanda lækkuðu mun meira milli mánaða en greinendur bankans höfðu gert ráð fyrir og þá lækkaði reiknuð húsaleiga jafnframt, þvert á væntingar greinendanna.

Hagfræðideild Landsbankans gerir eins og áður sagði ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 prósent í þessum mánuði. Bráðabirgðaspá hagfræðideildarinnar gerir auk þess ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,4 prósent í mars, 0,3 prósent í apríl en standi í stað í maí. Samkvæmt því verður ársverðbólga á næstu mánuðum á bilinu 1,5 til 1,8 prósent eða talsvert undir markmiði.

Helstu óvissuþættir í spánni, að sögn hagfræðideildarinnar, eru kjaraviðræður opinberra starfsmanna, húsnæðisverð, þróun útlánsvaxta, gengi krónunnar, flugfargjöld til útlanda og vaxtastigið og framleiðsluspenna hagkerfisins.