Heimsmarkaðsverð á áli mun gefa eftir það sem eftir lifir árs, þar sem hraðar verðhækkanir hafa skapað aukið framboð til skemmri tíma vegna sölu á gömlum birgðum. Þetta er mat greiningaraðilans CRU, sem sérhæfir sig meðal annars í mörkuðum með málma.

Hækkun verður hins vegar á næsta ári, að mati CRU. Mun verðið ná 2.500 Bandaríkjadölum á tonnið á næsta ári.

Vöxtur álframleiðslu í Kína er talinn munu hægjast mjög á þessu ári og innan skamms verður landið aftur nettóinnflytjandi áls sökum aukinnar eftirspurnar þar í landi. Er þetta talið munu styðja við heimsmarkaðsverð.

Eftir að hafa sigið niður í um það bil 1.500 Bandaríkjadali á tonnið fyrir um ári síðan, hefur álverð mjög sótt í sig veðrið síðan. Hefur verð á málminum hækkað um meira en 50 prósent síðan þá og slagar nú hátt í 2.400 Bandaríkjadali á tonnið.

CRU spáir því að verðið muni síga niður fyrir 2.200 dollara á síðari helmingi þessa árs, sem samvarar um 8 til 9 prósenta verðlækkun. Er helsta orsökin áðurnefnd sala á birgðum.

Strax á fyrsta ársfjórðungi næsta árs mun þróunin hins vegar snúast við, eftir að söluþrýstingur gamalla birgða hefur minnkað. Telja sérfræðingar CRU að verðið muni verða 2.500 Bandaríkjadalir á tonnið að meðaltali á fjórða ársfjórðungi næsta árs.

Er það nokkuð hærra en framvirkt verð LME gefur til kynna, en síðustu framvirku viðskipti um afhendingu á áli í desember 2022 voru gerð á verðinu 2.391,50 Bandaríkjadalir á tonnið.