Greiningardeild Arion banka spáir því að efnahagsbatinn á næsta ári verði hægur og hagvöxtur verði 2,5 prósent. Samdráttur yfirstandandi árs verði jafnframt um 7,5 prósent, sem er þó nokkuð skárra en á horfðist að sögn greiningardeildarinnar.

Atvinnuleysi mun haldast í hærri kantinum og verður að meðaltali 8,3 prósent á næsta ári, en einkaneysla mun engu að síður haldast í horfinu vegna þeirra samningsbundnu launahækkana sem eru framundan. Þetta kemur fram í nýrri hagspá greiningardeildarinnar til ársins 2023.

Mikill gangur hefur verið á húsnæðismarkaði að undanförnu, einkum vegna hraðrar lækkunar vaxta. Greiningardeild Arion telur að hækkandi verð á húsnæði muni hafa nokkuð áhrif til aukinnar verðbólgu en aðeins til skemmri tíma:

"Húsnæðisverðshækkanir og gengisveiking ýta verðbólgu tímabundið yfir efri vikmörk (4 prósent) en hún stoppar stutt við. Útlit er fyrir að verðbólga verði komin undir markmið árið 2022 og kallar kúfurinn því ekki á vaxtabreytingar. Vextir gætu hins vegar hækkað um mitt ár 2022 eftir því sem framleiðsluslakinn minnkar;" segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

En þrátt fyrir að lægri vextir hafi hleypt lífí húsnæðismarkað, hafa langtímavextir á markaði hins vegar hækkað sé litið til mismuns ávöxtunarkröfu langra og stuttra skuldabréfa á markaði. Þar af leiðandi hefur fjármögnunarkostnaður fyrirtækja hækkað, þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans.

"Þannig er aðeins gert ráð fyrir 1,2% vexti hefðbundinnar atvinnuvegafjárfestingar á næsta ári. Jafnvel þó hið opinbera spýti í lófana breytir það ekki stóru myndinni þar sem fjárfesting atvinnuveganna vegur þyngra en fjárfesting hins opinbera og íbúðafjárfesting til samans," segir í greiningu Arion banka, sem má lesa í heild sinni hér.