Sjóðstjórar evrópska eignastýringarfyrirtækisins BlueBay Asset Management búast við því að ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisskuldabréfa lækki um eitt hundrað punkta á næstu tólf mánuðum og að gengi krónunnar styrkist um tíu prósent á sama tíma. Gangi spáin eftir gæti fjárfesting í slíkum bréfum mögulega skilað meira en tuttugu prósenta ávöxtun á tímabilinu.

Þetta kemur fram í nýlegu bréfi fyrirtækisins, sem sjóðstjórinn Mark Dowding skrifar undir, til fjárfesta.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa sjóðir á vegum eignastýringarfyrirtækisins keypt ríkisskuldabréf í talsverðum mæli á síðustu dögum. Fyrirtækið hóf innreið sína á hérlendan skuldabréfamarkað árið 2015.

Í bréfinu segist fyrirtækið telja að sterkari króna muni á endanum þrýsta verðbólgu niður og gera Seðlabankanum kleift að lækka vexti á það stig sem tíðkast á öðrum þróuðum mörkuðum.

Um leið geti bankinn takmarkað áhættuna af því að vaxtamunarviðskipti leiði til bólumyndunar í hagkerfinu.

Bent er á að íslenska hagkerfið hafi vaxið hratt á síðustu fimm árum og sé nú, ólíkt því sem áður var, nettó útflytjandi fjármagns. Enn fremur hafi þau fjármagnshöft sem settu voru á í kjölfar hrunsins haustið 2008 verið losuð að nánast öllu leyti.

Sjóðstjórar BlueBay telja jafnframt líklegt að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs verði hækkuð í AA-flokk. Og í ljósi þess að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa sé meira en fimm prósent og að gengi krónunnar hafi veikst um fimmtán prósent gagnvart evrunni á undanförnum tveimur árum telja þeir einnig að ekki þurfi að líða á löngu þar til fleiri erlendir fjárfestar fari að sýna Íslandi áhuga sem fjárfestingarkosti.