Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólga hækki um 0,4 prósent í desember frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir verður tólf mánaða verðbólga fimm prósent en hún var 4,8 prósent í nóvember. Verðbólga hefur ekki mælst svo mikil í yfir níu ár.

„Verðbólga nær toppi nú í desember og tekur svo að hjaðna hægt og rólega gangi spá okkar eftir. Íbúðaverð ásamt matar- og drykkjarvörum vegur þyngst til hækkunar í mánuðinum,“ segir í Korni Íslandsbanka.

Útlit er fyrir að verðbólga taki að brátt að hjaðna jafn og þétt þar til hún verði við 2,5 prósenta markmið Seðlabankans á fyrsta ársfjórðungi 2023

Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir desember þann 21. desember næstkomandi.

Greining Íslandsbanka gerir enn ráð fyrir styrkingu krónu á næsta ári, að hægi á hækkunum á íbúðamarkaði og að jafnvægi komist á verð á innfluttum vörum

Fram kemur í Korni að spáð sé að verðbólgan verði 3,9 prósent að meðaltali 2022 og 2,6 prósent á meðaltali 2023. Í langtímaspá er gert ráð fyrir um sjö prósenta launahækkunum að jafnaði á næsta ári. „Kjarasamningar losna undir lok næsta árs og verði launahækkanir meiri en framangreind forsenda mun það leiða til þrálátari verðbólgu en hér er spáð,“ segir í Korni Íslandsbanka.