Arion banki spáir 5,5 prósenta hagvexti á árinu og er sú spá bjartsýnni heldur en spár annarra greiningaraðila. Þetta kom fram í viðtali við Ernu Björgu Sverrisdóttur, aðalhagfræðing Arion banka, í Markaðnum sem sýndur var á Hringbraut í gærkvöldi.

Erna segir að það séu fyrst og fremst tveir þættir sem gera það að verkum.

„Við erum að gera ráð fyrir meiri innlendri eftirspurn heldur en aðrir hafa verið að gera ráð fyrir. Síðan erum við tiltölulega bjartsýn á fjölda ferðamanna sem koma hingað til lands á árinu en við erum að spá að 1,6 milljónir ferðamanna muni sækja landið heim í ár.“

Arion er að spá minni hagvexti en bankinn gerði ráð fyrir í síðustu hagspá sinni.

Erna segir að ástæðan fyrir því að bankinn spái minni hagvexti nú en áður, sé fyrst og fremst meiri innlend eftirspurn.

„Það myndu flestir halda að við séum að spá minni hagvexti út af stríði í Evrópu og uppgangi Covid í upphafi árs. En það eru ekki bara versnandi efnahagshorfur sem spila hér inn í, heldur þvert á móti erum við að gera ráð fyrir meiri innlendri eftirspurn, meiri einkaneyslu og meiri fjárfestingu. Það kallar á gríðarlega mikinn innflutning þannig að framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar verður minna, eða réttara sagt ekki jafn hagfellt og áður.“ Erna bætir við að staðan á íbúðamarkaði sé erfið eins og sakir standa.

„Staðan er auðvitað erfið en það eru jákvæð teikn á lofti og fleiri íbúðir á fyrstu byggingarstigum sem er mjög jákvætt. Þó verður að hafa í huga að það tekur tíma fyrir þetta framboð að koma inn á markaðinn, eða 1-2 ár. Í okkar spá gerum við ráð fyrir að íbúðum muni fjölga út spátímann, en að fjárfestingin komist ekki almennilega á skrið fyrr en á næsta ári. Á sama tíma er eftirspurnarhliðin mjög sterk. Líklega verður áfram eftirspurnarþrýstingur á markaðnum, þrátt fyrir aðgerðir Seðlabankans til að stemma stigu við verðlækkunum, enda fólksfjölgun mikil og laun að hækka