Hagfræðideild Landsbankans spáir 4,5 prósent verðbólgu í október. Þetta kemur fram í Hagsjá bankans. Hagstofan birtir septembermælingu vísitölu neysluverðs miðvikudaginn 27. október og spáir Landsbankinn 0,6 prósent hækkun vísitölunnar milli mánaða.

„Verðbólga án húsnæðis hefur gengið nokkuð hratt niður að undanförnu og mældist hún 3,3% í september en hún sló hæst í 4,7% í janúar. Við spáum því að verðbólga án húsnæðiskostnaðar verði 3,4% í október, segir í tilkynningunni."

Þá segir jafnframt að helstu áhrifaþættir á verðbólguþróunina í septmber verði reiknuð húsaleiga, bansín og húsgögn og heimilisbúnaður og allir þeir þættir muni leiða til hækkunar á verðlagi.

„ Spá okkar til næstu þriggja mánaða er að VNV hækki um 0,4% í nóvember, 0,3% í desember en að hún lækki um 0,3% í janúar. Gangi spáin eftir mun verðbólgan verða 4,8% í janúar. Við teljum að verðbólga án húsnæðis verði 3,2% í janúar."

Eiga von á að dragi úr hækkunartakti húsnæðisverðs

Í Hagsjánni segir að í septeber hafi húsnæðisverð hækkað um 1,75 prósent milli mánaða og reiknuð húsaleiga hafi hækkað um tæplega 1,72 prósent.

„Þetta var mun meiri hækkun reiknaðrar húsaleigu en við áttum von á. Við spáðum því að hún myndi hækka um 0,8%. Við eigum von á að það dragi úr hækkunartakti húsnæðisverðs og að áhrif vaxtabreytinga til lækkunar á reiknaða húsaleigu hverfi alveg næstu mánuði. Áhrif lækkandi íbúðarlánavaxta á undanförnum misserum hafa dregið úr verðbólgu í gegnum reiknaða húsaleigu. Hækkun vaxta á íbúðalánum munu því að sama skapi hafa áhrif til aukinnar verðbólgu," segir í Hagsjánni.