Íslandsbaki spáir 4,2 prósent hagvexti á þessu ári og að verðbólgan á árinu muni verða 4,4 prósent. Þetta kemur fram í greiningu bankans.

„Sem fyrr er útlit fyrir myndarlegan vöxt, styrkingu krónu, hjaðnandi verðbólgu, betra jafnvægi á íbúðamarkaði og afgang af utanríkisviðskiptum þegar fram í sækir. Hagvöxtur mælist 4,2% á árinu, 3,6% á því næsta og 3,0% árið 2023,“ segir í greiningunni.

Jafnframt segir að einkaneysla og fjárfesting hafi tekið við sér undanfarið sem endurspeglist meðal annars í áframhaldandi hækkun íbúðaverðs, tímabundnum viðskiptahalla ásamt þrálátri verðbólgu og hraðri hækkun stýrivaxta.

Bankinn reiknar með að stýrivextir fari í 1,5% fyrir lok árs. Verði komnir í 2,5% um mitt ár 2022 og í 3,5% á 3. ársfjórðungi 2023.

Þá kemur fram að í greininguni að árið 2023 verði atvinnuleysið komið á svipaðan stað og það var fyrir faraldurinn.

„Við gerum ráð fyrir að atvinnuleysi verði að meðaltali 7,6% á þessu ári, 4,3% árið 2022 og árið 2023 verði atvinnuleysi komið í 3,7% og þar með á svipaðan stað og það var árið 2019 eða fyrir faraldurinn.“

Bankinn spáir 4,4% verðbólgu að meðaltali árið 2021, 3,0% 2022 og 2,5% 2023.