Greiningardeild Íslandsbanka spáir 0,75 prósenta hækkun stýrivaxta þann 22. mars næstkomandi en nokkrar líkur eru einnig á vaxtahækkun um hálfa eða eina prósentu. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu bankans en þar segir að efst á blaði í næstu stýrivaxta hækkun verði þrálát verðbólga og verri verðbólguhorfur en Seðlabankinn vænti í febrúarbyrjun.
„Stýrivextir munu líklega ná hámarki í að minnsta kosti 7,5% um mitt ár og líkur hafa minnkað á að lækkun vaxta komi til á yfirstandandi ári,“ segir í tilkynningunni þar sem svo er farið yfir þau rök sem færð voru fyrir hækkun í febrúar þegar stýrivextir voru hækkaðir um 0,5 prósent.
Helstu rök fyrir hækkun vaxta í febrúar voru að verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert á ný og að það tæki líklega lengri tíma en áður var talið að ná verðbólgu í markmið sökum mikilla launahækkana og annarra vísbendinga um aukinn verðbólguþrýsting.
„Verðbólga hefði haldist mikil um nokkurt skeið og því væri aukin hætta á að hún verði þrálát,“ segir Íslandsbanki og að litlar vísbendingar væru um að það sé að draga úr almennri verðbólgu.
Þá hafði spenna á vinnumarkaði einnig áhrif auk þess sem nýlegir kjarasamningar eru sagðir kostnaðarsamir en á þeim tíma átti enn eftir að klára samningalotuna á almennum markaði. Þá var þá bent á að gengi krónunnar hafði lækkað og að útlit væri fyrir að aðhald samþykktra fjárlaga væri minna en gert var ráð fyrir miðað við fjárlagafrumvarpið.
„Frá vaxtaákvörðuninni í febrúar hefur ýmislegt þróast heldur til verri vegar hvað verðbólguhorfur varðar þótt einnig megi tína til nokkur atriði sem fallið hafa með peningastefnunefndinni að því leytinu. Síðarnefndu þættirnir duga hins vegar skammt til að breyta þeirri skoðun nefndarmanna frá febrúar að meira vaxtaaðhalds sé þörf,“ segir en hægt er að skoða tilkynninguna hér.