Greiningar­deild Ís­lands­banka spáir 0,75 prósenta hækkun stýri­vaxta þann 22. mars næst­komandi en nokkrar líkur eru einnig á vaxta­hækkun um hálfa eða eina prósentu. Þetta kemur fram í til­kynningu á heima­síðu bankans en þar segir að efst á blaði í næstu stýri­vaxta hækkun verði þrá­lát verð­bólga og verri verð­bólgu­horfur en Seðla­bankinn vænti í febrúar­byrjun.

„Stýri­vextir munu lík­lega ná há­marki í að minnsta kosti 7,5% um mitt ár og líkur hafa minnkað á að lækkun vaxta komi til á yfir­standandi ári,“ segir í til­kynningunni þar sem svo er farið yfir þau rök sem færð voru fyrir hækkun í febrúar þegar stýri­vextir voru hækkaðir um 0,5 prósent.

Helstu rök fyrir hækkun vaxta í febrúar voru að verð­bólgu­horfur hefðu versnað tölu­vert á ný og að það tæki lík­lega lengri tíma en áður var talið að ná verð­bólgu í mark­mið sökum mikilla launa­hækkana og annarra vís­bendinga um aukinn verð­bólgu­þrýsting.

„Verð­bólga hefði haldist mikil um nokkurt skeið og því væri aukin hætta á að hún verði þrá­lát,“ segir Ís­lands­banki og að litlar vís­bendingar væru um að það sé að draga úr al­mennri verð­bólgu.

Þá hafði spenna á vinnu­markaði einnig á­hrif auk þess sem ný­legir kjara­samningar eru sagðir kostnaðar­samir en á þeim tíma átti enn eftir að klára samninga­lotuna á al­mennum markaði. Þá var þá bent á að gengi krónunnar hafði lækkað og að út­lit væri fyrir að að­hald sam­þykktra fjár­laga væri minna en gert var ráð fyrir miðað við fjár­laga­frum­varpið.

„Frá vaxta­á­kvörðuninni í febrúar hefur ýmis­legt þróast heldur til verri vegar hvað verð­bólgu­horfur varðar þótt einnig megi tína til nokkur at­riði sem fallið hafa með peninga­stefnu­nefndinni að því leytinu. Síðar­nefndu þættirnir duga hins vegar skammt til að breyta þeirri skoðun nefndar­manna frá febrúar að meira vaxta­að­halds sé þörf,“ segir en hægt er að skoða til­kynninguna hér.