Í Hagsjá Landsbankans í morgun segir að færa megi rök fyrir minni hækkun en líklega muni nefndin líta svo á að senda þurfi skýr skilaboð um að böndum verði náð á verðbólgu. Landsbankinn útilokar ekki að hækkunin geti orðið jafnvel 0,75 prósent en telur það ólíklegt.

Peningastefnunefnd hefur nú hækkað stýrivexti 10 sinnum í röð og yrði hækkun í næstu viku því sú 11. í röðinni. frá því í maí 2021 hafa vextir hækkað úr 0,75 prósentum í 6 prósent, eða um 5,25 prósentustig. Fara þarf aftur til ársins 2010 til að finna sambærilega vexti og nú.

Hagfræðingar Landsbankans hafa áhyggjur af því að verðbólgan sé orðin almennari en áður og nú hafi 69 prósent undirliða vísitölu neysluverðs hækkað um meira en fimm prósent og 27 prósent undirliða um meira en 10 prósent.

Undirliðirnir eru samtals 169 og ef horft er til ársverðbólgunnar, sem nú mælist 9,9 prósent, eru það fjórir af þessum 169 liðum sem skýra helming hennar. Þetta eru reiknuð húsaleiga, verð á nýjum bílum, 95 oktana bensín og díselolía.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í dag skýra opinberar gjaldskrárhækkanir nánast alla hækkun vísitölunnar milli desember og janúar, en ríkisstjórnin hækkaði um áramót álögur á bíla, eldsneyti og áfengi. Við þetta bætist að háir vextir halda uppi reiknaðri húsaleigu þrátt fyrir að húsnæðisverð sé tekið að lækka.