Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í grein á vef Vísis að það sé áróðursbragð af hálfu Samtaka atvinnulífsins að biðja um skýringar á fjölgun opinberra starfsmanna. Líkt og greint var frá í gær hefur starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem að mestu eru reknar af ríki og sveitarfélögum, fjölgað um 9.000 frá september 2017 til september 2021. Starfsfólki í einkageiranum fækkaði á sama tíma um 8.000.

Samtök atvinnulífsins, SA, vöktu athygli á þessum tölum Hagstofunnar. Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, sagði í samtali við Markaðinn að það kunni ekki góðri lukku að stýra að sífellt færri standi undir skattgreiðslum til hins opinbera. „Það stendur upp á ríki og sveitarfélög að skýra þessa þróun og varpa ljósi á það hvernig hún sundurliðast,“ sagði hún.

Sonja segir í grein sinni í morgun að svarið liggi í augum uppi. „Staðreyndin er sú að landsmönnum fjölgar og þar með eykst þörfin fyrir starfsfólk í almannaþjónustunni. Því fjölmennari sem þjóðin er er og því meira sem fólk eldist þurfum við fleira starfsfólk í umönnun og heilbrigðiskerfinu. Þegar afbrotunum fjölgar þarf fleiri lögreglumenn til starfa,“ segir hún.

Sem hlutfall af landsmönnum öllum þá hafi fjöldinn nánast staðið í stað. „Hagsmunasamtök fyrirtækja vita þetta allt vel. Samt kjósa talsmenn þeirra að bera fram þessar spurningar sem hluta af áróðri sínum,“ segir Sonja.

Sæti það í raun furðu að þeim hafi ekki fjölgað meira. „Þar horfa þeir líka fram hjá því að gríðarlegt álag hefur verið á heilbrigðiskerfið, almannavarnir, skólakerfið og meirihluta stofnana í almannaþjónustu vegna heimsfaraldursins og í raun má furðu sæta að starfsfólki hafi ekki verið fjölgað meira til samræmis við aukna þörf.“