Sölvi Blöndal, efnahagsráðgjafi GAMMA, sagði starfi sínu lausu í haust og er að vinna uppsagnarfrestinn. Þetta segir hann í samtali við Vísi.is.

Hann hefur starfað í átta ár hjá fyrirtækinu og segir að það sé eðlilegt eftir svo langan tíma að hugsa sér til hreyfings „Þetta hefur verið skemmtilegur tími en nú er tímabært að breyta til,“ sagði Sölvi.

Að hans sögn verði tíminn að leiða í ljós hvað hann muni taka sér fyrir hendur eftir starfslokin. Fram kemur í fréttinni að Sölvi hafi nýlega tekið við starfi aðjúnkts hjá Hagfræðideild Háskóla Íslands og kenni eitt námskeið. Auk þess sé Sölvi einn aðaleigenda tónlistarútgáfunnar Öldu Music.

Sölvi segir að starfslokin tengist ekki kaupum Kviku banka á GAMMA. Hann hafi unnið vel með Kviku og starfslokin séu í fullkominni sátt allra.