Hafnar eru einkaviðræður á sölu Bændahallarinnar, sem hefur hýst Hótel Sögu í hjartnær sextíu ár. Að því er kemur fram í frétt á vef Bændasamtaka Íslands miðar viðræðum á sölunni við hóp íslenskra fjárfesta vel en eru þó enn á viðkvæmu stigi.

Heimild var veitt fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu Bændahallarinnar í júlí í fyrra. Hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson, sem var skipaður tilsjónarmaður endurskipulagningarinnar, undirritaði svohljóðandi tilkynningu frá samningsaðilunum:

„Stjórn Bændahallarinnar ehf., félags í eigu Bændasamtaka Íslands, hefur samþykkt að hefja einkaviðræður við hóp fjárfesta, sem meðal annars tengjast Hótel Óðinsvé, um sölu á fasteign sinni, Bændahöllinni við Hagatorg 1 í Reykjavík, sem hýst hefur starfsemi Hótel Sögu um áratuga skeið. Gangi kaupin eftir áforma nýir eigendur áframhaldandi rekstur hótels í fasteigninni.“

Síðastliðinn mars höfðu verið hafnar formlegar viðræður um möguleg kaup Háskóla Íslands á Bændahöllinni. Nú virðist sem þær viðræður hafi dagað uppi.