Íslensk og erlend fjármálafyrirtæki, sem eru ráðgjafar vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutum í Íslandsbanka í almennu hlutafjárútboði, gera ráð fyrir því í ítarlegum greiningum sem þeir kynna nú mögulegum fjárfestum, að arðsemi í rekstri bankans muni batna á komandi árum og að hagnaðurinn verði á bilinu 16,5 milljarðar til um 19 milljarðar þegar komið verður fram á árið 2023.

Þetta má lesa út úr greiningarskýrslum níu ráðgjafa, sem hafa verið birtar í rafrænu gagnaherbergi í tengslum við söluferlið og Markaðurinn hefur séð, en í þeim er ekki framkvæmt eiginlegt verðmat á bankanum vegna útboðsins.

Í greiningu Fossa markaða, sem eru á meðal ráðgjafa við söluna, kemur hins vegar fram að gert sé ráð fyrir því að hagnaður Íslandsbanka muni nema tæplega 19 milljörðum á árinu 2023 og gangi þær rekstraráætlanir eftir megi áætla að virði bankans sé á bilinu 222 til 242 milljarðar króna. Það er umtalsvert meira en bókfært eigið fé bankans í lok fyrsta ársfjórðungs, sem nam 185,5 milljörðum, en mat Fossa grundvallast meðal annars á því að umfram eigið fé Íslandsbanka sé um 30 milljarðar.

Þá kemur fram í greiningu Jakobsson Capital, sem er sjálfstæður greiningaraðili og ekki ráðgjafi við sölu bankans, að miðað við tilteknar rekstraráætlanir sem lagðar séu til grundvallar þá liggi verðmæti Íslandsbanka á bilinu 154,9 milljarðar til 218 milljarðar, eða sem jafngildir genginu 0,83 til 1,17 af bókfærðu eigin fé. Greining Jakobsson er sögð viðkvæm fyrir breytingum á mikilvægum forsendum, sérstaklega virkum vaxtamun bankans.

Í greiningum annarra ráðgjafa, meðal annars Barclays, Citi, JP Morgan, Landsbankans, Arion banka og Íslenskra fjárfesta, er ekki sett fram mat á hvert virði bankans kunni að vera en hins vegar eru afkoma hans og rekstraráætlanir bornar saman við aðra innlenda og erlenda banka og markaðsvirði þeirra. Miðað við þann samanburð megi áætla að markaðsvirði Íslandsbanka sé nokkuð undir bókfærðu eigin fé hans.

Ríkissjóður, sem er eigandi alls hlutafjár í Íslandsbanka, áformar sem kunnugt er að selja á bilinu 25 til 35 prósenta hlut í bankanum í gegnum útboð og skráningu á markað síðar í þessum mánuði. Stjórnendur bankans hafa gefið út að markmið hans sé að skila arðsemi eigin fjár á bilinu 8 til 10 prósent fyrir árið 2023 og yfir 10 prósent til lengri tíma. Hagnaður bankans á fyrsta ársfjórðungi nam 3,6 milljörðum sem jafngilti 7,7 prósenta arðsemi á ársgrundvelli.

Í þessari viku standa yfir fundir ráðgjafa með fjárfestum, bæði innlendum og erlendum, en viðbrögð þeirra á fundunum verða á meðal þess sem litið verður til þegar Bankasýslan, sem heldur utan um hlut ríkisins í Íslandsbanka, ákvarðar verðbil og stærð útboðsins. Samkvæmt viðmælendum Markaðarins, sem hafa setið fundi með ýmsum söluráðgjöfum að undanförnu, er talið afar sennilegt að verðbilið í útboðinu verði einhvers staðar á genginu 0,8 til tæplega 0,9 miðað við bókfært eigið fé bankans sem þýðir að markaðsvirði bankans sé á bilinu 148 til 167 milljarðar. Í ríkisreikningi er hluturinn bókfærður á genginu 0,8 miðað við eigið fé.

Samkvæmt heimildum Markaðarins er gert ráð fyrir því að útgáfa skráningarlýsingar og fjárfestakynning, þar sem fyrirhugað verðbil mun koma fram, verði að líkindum birt næstkomandi mánudag. Í kjölfarið hefjist öflun áskrifta frá fjárfestum (e. book building), þar sem þeir geta skráð sig fyrir hlutum í útboði Íslandsbanka, og að hlutafjárútboðið muni standa yfir til 16. júní.