Í ljósi fjórfaldar umframeftirspurnar í hlutafjárútboði tölvuleikaframleiðandans Solid Clouds var öllum áskriftum hafnað sem bárust eftir að fyrirtækið tilkynnti að borist hefði tilboð umfram þá 58 milljón hluti sem heimilt var að bjóða út. Áskriftum frá hundruð þátttakendum í útboðinu var hafnað og hlutur skertur verulega hjá öðrum. Þetta kemur fram í tölvupósti frá Arion banka, sem annaðist hlutafjárútboðið, til fjárfesta sem vildu kaupa í Solid Clouds.

„Þeir mælikvarðar sem stjórn Solid Clouds hf. beitti við skerðinguna byggja á hlutlægum grunni og útgangspunkturinn var sá að tryggja hagsmuni félagsins og sömu meðferð áskrifenda í sömu stöðu. Meðal þeirra þátta sem stjórn félagsins horfði til við úthlutun var tímasetning skráningar í útboðinu. Þeir sem óskað höfðu eftir áskrift áður en félagið birti tilkynningu um að áskrift hafi borist fyrir öllum hlutum útboðsins fengu þannig allir úthlutun, þó þeir hafi þurft að sætta sig við umtalsverða skerðingu áskriftar. Þá var jafnframt horft til þess að skattafsláttur vegna fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum miðast við 300.000 kr. og áskriftir einstaklinga sem höfðu skráð sig fyrir framangreint tímamark (fyrir fjárhæð umfram 300.000 kr.) voru því skertar niður í lágmark skattafsláttarins,“ segir í bréfinu sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Í tilkynningu frá Solid Clouds sagði að tilboð fyrir 2,8 milljarða hafi borist í hlutaféð frá 2.700 fjárfestum. Horft hafði verið til þess að afla um 500 milljóna til 725 milljóna króna með útboðinu.

„Þetta er fjórum sinnum meira en við vildum. Það er mjög gott og ég held að þetta séu á­kveðin vatnaskil varðandi fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi,“ segir Stefán Þór Gunnarsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, í samtali við Fréttablaðið, við það tilefni.

Solid Clouds hefur fjárfest fyrir um milljarð í tæknigrunni til framleiðslu fjölspilunarleikja. Fyrir hlutafjárútboðið voru hluthafar fyrirtækisins 172. „Þetta er því skynsamlegt næsta skref í sögu félagsins,“ sagði Stefan Gunnarsson, forstjóri fyrirtækisins, fyrir skemmstu í samtali við Markaðinn.

Það tók fjögur ár að þróa fyrsta fjölspilunartölvuleik fyrirtækisins, Sovereign Space, en stefnt er að því að það muni taka eitt og hálft ár að ljúka við gerð næsta leiks sem ber nafnið Frontier sem koma mun út um mitt næsta ár.

„Við viljum gefa út tölvuleiki á þriggja ára fresti. Það dregur úr áhættu í rekstri að hafa nokkra tekjustofna í stað þess að treysta á einn tölvuleik og eykur það verðmæti fyrirtækisins. Hluti af viðskiptamódeli okkar er að flýta þeim hraða sem það tekur að þróa leiki,“ sagði Stefán Gunnarsson.

Á meðal hluthafa Solid Clouds eru fjárfestingafélagið Kjölur sem leiddi fjármögnun GreenQloud, Sigurður Arnljótsson, einn af stofnendum CCP, Brimgarðar sem er í eigu fjölskyldunnar sem á heildversluna Mata en hún fjárfesti líka í CCP, og Silfurberg sem er í eigu hjónanna Friðriks Steins Kristjánssonar og Ingibjargar Jónsdóttur en þau hafa fjárfest umtalsvert í sprotum. Erlendu leikjafjárfestarnir Sisu Game Venture og Vilano Capital eru jafnframt á meðal hluthafa.

Ekki hefur verið birtur hluthafalisti eftir að hlutafjárútboðið átti sér stað.