Face­book hefur viður­kennt að hafa ó­af­vitandi hlaðið upp síma­skrám 1,5 milljón not­enda án sam­þykkis þeirra. Þau segja að þau muni eyða gögnum sem safnað var og muni láta not­endur vita.

Upp komst um þetta í kjöl­far gagn­rýni öryggis­sér­fræðinga á Face­book vegna fítusar sem bað nýja not­endur um lykil­orð að net­föngum þeirra um leið og þau ný­skráðu sig á Face­book. Auk þess sem að not­endur urðu þá við­kvæmari fyrir utan­að­komandi hættu þá hóf Face­book, um leið og þau skráðu sig inn, að hlaða upp síma­skránni þeirra án leyfis.

„Í síðasta mánuði hættum við að bjóða fólki upp á að sann­reyna hver þau væru með lykil­orði net­fangs þegar þau skráðu sig á Face­book,“ segir í yfir­lýsingu fyrir­tækisins.

Þar segir að upp hafi komist um þetta þegar þau skoðuðu ferlið sem nýir not­endur fóru í gegnum við ný­skráningu.

„Við gerum ráð fyrir að síma­skrár allt að 1,5 milljón not­enda hafi verið hlaðið inn. Upp­lýsingum hefur ekki verið deilt með neinum öðrum og við erum að eyða þeim,“ sagði tals­maður fyrir­tækisins.

Talsmaðurinn sagði einnig að það væri búið að laga þetta og þau væru núna að hafa sam­band við þá aðila sem kerfis­villan hafði á­hrif á. Nú á fólk að geta farið yfir og stjórnað síma­skránni sem þau deila með Face­book í stillingum.

Átti að einfalda ferli nýskráningar

Fjallað var fyrst um máliðá vef Daily Beast í byrjun apríl. Þar segir að ferlið hafi átt að ein­falda ný­skráningu en að öryggis­sér­fræðingar ekki talið það gott og að með því hafi Face­book fengið að­gengi að mjög miklum per­sónu­legum gögnum not­enda og geti leitt til þess að not­endur passi ekki nægi­lega vel upp á lykil­orðin sín.

Í byrjun apríl sagði Face­book það ekki rétt að þau væru að hlaða upp síma­skrám og að þau geymdu ekki lykil­orðin þótt að fólk notaði þau við að ný­skrá sig. Þó að fyrir­tækið hafi nú viður­kennt að þau hafi safnað gögnunum og sagt að þau ætli að eyða þeim er ekki ljóst hvort þau eyði öllum gögnum sem þau geta hafa safnað í tengslum við ein­stak­linga sem var að finna í síma­skrám þessara ný­skráðu not­enda eða hvort það er hægt.

Guar­dian segir í umfjöllun sinni um málið að Face­book hafi ekki svarað fyrir­spurnum sínum hvað varðar eyðingu gagnanna.