Markaðurinn

Snjallt PR

Miðborgin gengur gegnum endurnýjun lífdaga þessi misserin og verður vart þverfótað fyrir byggingakrönum. Ekki er hægt að neita því að ásýnd borgarinnar hefur batnað mikið og er þar að stórum hluta hægt að þakka ferðamannaflaumnum. Ferðamennirnir smyrja ekki bara hagkerfið heldur heimsækja einnig verslanir, veitingahús, söfn og gististaði og valda því að aukinn markaður er fyrir metnaðarfulla uppbyggingu á bestu stöðum borgarinnar. Meðal þess sem nú er í uppbyggingu er Hafnartorgið svokallaða sem mun setja mikinn svip á miðborgina. Vonandi til hins betra, en Hafnartorgið er á lykilstað í borginni, gegnt Arnarhváli og Stjórnarráðinu, og hinum megin við götuna frá Hörpu. Ekki er laust við að stjórnarmaðurinn hlakki til að sjá hvernig tekst til.

Nánast áður en fyrsta skóflustungan hafði verið tekin bárust fregnir af því að fasteignafélagið Reginn hefði náð samningum við H&M um uppbyggingu stórverslunar á jarðhæð Hafnartorgs. Síðar kom reyndar á daginn að ekki var allt klappað og klárt hvað það varðar, en það var þó ekki látið tefja fyrir tilkynningu um ráðahaginn. Nú í liðinni viku bárust fréttir af því að Reginn hefði átt í viðræðum við risavaxin alþjóðleg tískumerki um opnun á Hafnartorgi. Voru þar nefnd merki á borð við Loius Vuitton, Gucci, Burberry og Prada. Það munar ekki um minna.

Fjölmiðlar gripu yfirlýsingar Regins að sjálfsögðu á lofti, en veittu því þó ekki athygli að Reginn sagðist einungis eiga í viðræðum „gegnum ráðgjafarfyrirtæki“. Nú er ekki gott að spyrja hvernig skilgreina eigi viðræður? Er það símtal, fundur eða dugar einfaldur tölvupóstur? Fjölmiðlamönnunum hefur ekki dottið í hug að hringja einfaldlega í talsmenn þessara erlendu stórfyrirtækja og fá málið á hreint?

Nú skal ekki gert lítið úr endurreisn miðbæjarins og þeim metnaði sem einkennir uppbyggingu við Hafnartorg. Það breytir því hins vegar ekki að Ísland er enn örmarkaður sem á tímum aukinnar netverslunar á bágt með að styðja við þær tískuverslanir sem fyrir eru í landinu. Því verður að teljast ólíklegt að rótgróin erlend tískufyrirtæki horfi hingað til lands hýru auga. Miðað við árferðið væru það helst enn fleiri útivistarmerki.

Þá er það spurning hvort hrósa eigi Regin fyrir metnaðinn, eða fyrir enn nýja og snjalla auglýsingabrellu. Stjórnarmaðurinn hallast að því síðarnefnda.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Vilhelm Már ráðinn forstjóri Eimskips

Erlent

Banka­stjórinn biður Malasíu­búa af­sökunar

Innlent

Björg­ólfur Thor fjár­festir í bresku tækni­fyrir­tæki

Auglýsing

Nýjast

Hækka verð­mat sitt á Skeljungi lítil­lega

Minni eignir í stýringu BlackRock

Hall­dór Brynjar í eig­enda­hóp LOGOS

Hlutabréf í Icelandair hækka um 3,4 prósent

Verðbólga ekki lægri í Bretlandi í tvö ár

Vofa góðra stjórnarhátta

Auglýsing