Öryggismiðstöðin hefur sett á markað Snjallhnapp fyrir eldri borgara, fatlað fólk og aðra þá sem þurfa aðstæðna sinna vegna að njóta aukins öryggis heima við og geta kallað eftir tafarlausri aðstoð.

Grunnvirkni Snjallhnappsins byggist áfram á öryggishnappi sem fólk ber á sér, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Því til viðbótar er nú hægt að fá nokkra skynjara setta upp á heimili þess sem er með kerfið, sem greina hreyfingu og gefa færi á að senda boð ef eitthvað bregður út af vana á heimilinu. Aðstandendur fá app í snjalltækin sín og með snjallreglum í appinu er hægt að fá mikilvægar upplýsingar og tilkynningar um velferð og heilsu þess sem ber hnappinn.

,,Sem dæmi um snjallreglu í kerfinu má nefna að kerfið getur látið vita af því að viðkomandi sé kominn á ról að morgni dags og sé á hreyfingu um heimilið og ef sá sem notar kerfið skilar sér ekki inn í eldhús í hádegismat eða er óvanalega lengi á salerninu getur kerfið sent aðstandendum tilkynningu. Fólk hefur að sjálfsögðu val um hvernig það stillir upp kerfinu, hversu mikið af upplýsingum það vill deila með aðstandendum, eða hvort það kjósi yfirhöfuð að nýta þann möguleika," segir Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar.

Munurinn á snjallhnappi og öryggishnappi er sá að það þarf ávallt að þrýsta á hefðbundinn öryggishnapp ef aðstoðar er þörf. Með snjallhnappi er hins vegar hægt að fylgjast mun betur með og kerfið lætur vita ef eitthvað bregður út af vana. Þannig er ekki einungis hægt að bregðast við neyð heldur einnig fylgjast með og sjá ýmiss konar mikilvægar vísbendingar um hrakandi heilsu og aðstæður sem þarf að bregðast við. Snjallhnappurinn er tengdur stjórnstöð Öryggismiðstöðvarinnar sem bregst strax við öllum neyðarboðum frá kerfinu.