Ýmsir hafa sett spurningarmerki við eina af vinsælustu vörum vefverslunarinnar Amazon, það er að segja snjallhátalarann Echo, sem stýrt er af Alexu. Vilja notendur nú meina að Alexa taki hvert einasta samtal sem hún heyrir upp. The Guardian greinir frá.

Kona nokkur að nafni Danielle, frá Portland í Bandaríkjunum, lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu að Alexa sendi upptöku af samtali hennar og eiginmannsins til vinnufélaga hennar út frá tengiliðaskrá í snjallsímanum.

Árás inn í einkalífið

Fyrir þau sem ekki vita tekur Echo-hátalarinn, sem „stýrt“ er af Alexu, við skipunum eiganda síns. Þannig getur hún til að mynda tekið við óskalögum og spilað þau, flett upp upplýsingum á netinu og numið hljóðmerki.

Notendum hefur hingað til verið talin trú um að Alexa hleri ekki eða taki upp allt sem fram fer í návist hennar. Til þess að virkja hana þurfi einfaldlega að ávarpa hana með nafninu, Alexa.

Í viðtali við sjónvarpsstöðina KIRO-TV í Seattle sagði Danielle þessi að hún gæti aldrei notað þessa tækni aftur. Búið væri að aftengja allar Alexur heimilisins eftir atvikið.

„Mér leið eins og ráðist hefði verið inn í einkalíf mitt,“ er haft eftir henni.

Talsmaður Amazon með skýringu

Talsmaður Amazon segir þetta líklegast eiga sér skýringu og ítrekar að hátalarinn hleri ekki hvert einasta orð sem fram fer á heimilinu. Virkja þurfi Alexu til þess að upptaka fari af stað.

Er talsmaðurinn búinn að finna skýringu á þessu undarlega atviki, að hann telur.

„Echo [hátalarinn] hefur numið samskiptin í bakgrunni með orð sem hljómaði eflaust eins og „Alexa“. Í sama samtali hefur síðan eitthvað sem hljómaði eins og „senda skilaboð“ heyrst,“ segir talsmaðurinn.

Því næst hafi Alexa spurt, án þess að hjónin heyrðu til, hvert senda ætti skilaboðin og þau minnst á viðkomandi, eða í það minnsta nafn sem hljómaði líkt og það. Að lokum hafi hljóðupptakan verið send á tengiliðinn.