Fyrirtækið Snerpa Power er meðal þeirra sjö fyrirtækja sem eru þátttakendur í viðskiptahraðlinum Hringiðu. Hraðallinn snýst um fyrirtæki sem koma með lausnir er snúa að hringrásarhagkerfinu. Snerpa Power var stofnað í þeim tilgangi að virkja raforkunotendur á Íslandi til þátttöku á raforkumarkaði og bæta þannig auðlindanýtingu og skapa aukið svigrúm fyrir orkuskiptin.

Fyrirtækið er stofnað af þeim Eyrúnu Linnet og Írisi Baldursdóttur en þær eru báðar rafmagns- og tölvuverkfræðingar. Eyrún er stofnandi og stjórnarformaður fyrirtækisins en Íris stofnandi og framkvæmdastjóri. Eyrún hefur unnið í raforkugeiranum í 15 ár, bæði hjá Landsneti og sem rafveitustjóri hjá ISAL. Íris hefur unnið í störfum tengdum raforku bæði á Íslandi og á erlendri grundu. Hún vann hjá Landsneti í 15 ár, þar áður hjá alþjóðlegum rafbúnaðarframleiðanda, ABB, og nú starfar hún hjá Samtökum raforkuflutningsfyrirtækja Evrópu í Brussel.

Íris segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi verið í nokkur ár í mótun.

„Við einfaldlega komum auga á tækifæri á raforkumarkaði til að auka nýtingu auðlinda en svo þarf að útfæra það. Það er straumbreyting að eiga sér stað á markaði sem tengist áherslum í loftslagsmálum og það skiptir miklu máli að fá inn notendur sem geta stýrt sínu álagi og þannig selt hluta af sinni notkun aftur upp á net í formi reglunar til að jafna skammtímafrávik í framleiðslu og notkun. Það vantar hins vegar þetta millistykki milli stórnotandans og markaðarins til að raungera þessa breytingu og þar komum við inn,“ segir Íris og bætir við að mikilvægt sé að virkja raforkunotendur hér á landi til þátttöku á raforkumarkaði og auka þannig samkeppnishæfni.

„Við gerum raforkunotendum kleift að selja brot af sínu álagi til baka aftur inn á net. Lausnin sem við bjóðum upp á leiðir þannig til bættrar auðlindanýtingar. Við erum að þróa hugbúnaðarplatform sem nýtist stórnotendum rafmagns og gerir þeim kleift að besta reglunartilboð inn á markað með sjálfvirkum hætti. Við munum einnig sjálfvirknivæða ákveðna ferla hjá stórnotendum varðandi áætlanagerð og bæta áhættustjórnun með sjálfvirku eftirliti með álagsstýringu.“

Íris segir að markmið fyrirtækisins sé að ljúka við fyrstu útgáfu af hugbúnaðinum og tengja fyrsta stórnotandann í tilraunaverkefni.

„Þetta er í raun sérstök þjónusta sem er seld til Landsnets. Um er að ræða skammtímastýringu á álagi sem mætir frávikum á framboðs- og eftirspurnarhlið sem til verður í rauntíma og þarf að jafna.“

Íris segir jafnframt að hún vonist til að þátttaka í Hringiðu muni skila þeim þekkingu sem geti nýst við styrkumsóknir erlendis frá.

„Dagskráin er yfirgripsmikil og það er meðal annars ótrúlega flottur hópur mentora sem kemur að þessum sjö teymum sem fá að taka þátt. Það er frábært tækifæri að hitta fólk úr mörgum geirum með viðamikla reynslu af nýsköpun, þróun og fjármögnun verkefna. Ég tel að sú þekking muni nýtast okkur við styrkumsóknir fyrir Evrópustyrki og sérstaklega á sviði hringrásarhagkerfisins en okkar verkefni fellur einmitt að því.“