Veitingastaðnum Snaps á Óðinsgötu var skellt í lás þann 11. janúar síðastliðinn og öllu starfsfólki sagt upp. Sögusagnir hafa verið á kreiki um að opna ætti fjölskylduvænan stað í rýminu.

Birgir Þór Bieltvedt, eigandi Snaps, blæs þó alfarið á þær sögusagnir í samtali við Fréttablaðið. Verið sé að endurskipuleggja reksturinn og staðurinn opni á ný um mánaðamótin mars/apríl.

„Við erum að dunda okkur við að koma staðnum í topp stand, erum m.a. að breyta eldhúsinu. Hótel Óðinsvé er lokað og við ákváðum að loka Snaps á meðan og opna í samfloti við hótelið í apríl."

Birgir Þór Bieltvedt eigandi Snaps og Bodega.
Fréttablaðið/Ernir

Birgir segir að aukin áhersla verði lögð á franska bístroið og að franskur kokkur hafi verið ráðinn inn til að sjá um eldhús veitingastaðarins og skerpa á áherslum. Þá sé verið að laga og breyta kjallaranum á Snaps en þar mun opna nýr staður þann 1. maí næstkomandi. Birgir vildi þó ekki gefa upp hvers konar staður verði opnaður þar.

Vínbarinn Bodega, sem er einnig í eigu Birgis og er staðsettur ská á móti Snaps við Óðinstorg verður opnaður að nýju þann 1. mars næstkomandi, þá einnig með veitingaleyfi þó að áherslan verði enn lögð á vín.

Hvað varðar endurráðningu starfsmanna segir Birgir að hluti þeirra sem sagt var upp í janúar verði endurráðnir en einnig verði ráðin inn ný andlit.